Þingmenn öldungadeildar Bandaríkjaþings munu í dag kynna sér niðurstöðu skýrslu alríkislögreglunnar, FBI, um um meint kynferðisbrot Brett Kavanaugh, dómaraefnis Donalds Trump forseta til Hæstaréttar Bandaríkjanna.
Fyrirkomulagið verður með óhefðbundnum hætti en hver þingmaður fær ekki sitt eintak af skýrslunni, líkt og venjan er, heldur fá þingmenn flokkanna aðgang að skýrslunni í lokuðu öryggisrými. Þingflokkarnir munu skiptast á, klukkutíma í senn. Þá geta þingmenn einnig óskað eftir því að þeim verði gerð grein fyrir niðurstöðum skýrslunnar.
Kavanaugh hefur ítrekað neitað öllum ásökunum um kynferðisbrot. Í nýrri skýrslu FBI var meðal annars rætt við fyrrverandi bekkjarsystur Kavanaugh úr Yale-háskóla, Deborah Ramirez, að því er Reuters greinir frá. Ramirez segir að Kavanaugh hafi berað kynfæri sín og látið hana snerta þau í partíi. Í frétt Reuters segir að Ramirez hafi afhent lista með nöfnum 20 vitna að þessu athæfi hans.
Talsmenn Hvíta hússins hafa fengið afrit af viðtölum sem FBI tók vegna rannsóknarinnar og í yfirlýsingu sem send var öldungadeildaþingmönnum í nótt segir að niðurstöðurnar bendi til að ekki sé hægt að finna neitt í viðtölunum sem styðji ásakanir gegn Kavanaugh.
„Með þessum viðbótarupplýsingum er Hvíta húsið fullvisst um það að tilnefning Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara verði samþykkt,“ segir Raj Shah, talsmaður Hvíta hússins.
Leiðtogar repúblikana í öldungadeildinni vinna hörðum höndum að því að tilnefning Kavanaugh verði staðfest sem fyrst. Mitch McConnel, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, hefur boðað til atkvæðagreiðslu á morgun um það hvort tilnefning Kavanaugh samræmist þingskaparlögum. Þetta tilkynnti hann áður en hann kynnti sér niðurstöðu skýrslunnar.
Ef atkvæðagreiðslan fer fram á morgun fara fram stuttar umræður um tilnefninguna áður en lokaatkvæðagreiðslan fer fram, sem gæti orðið strax daginn eftir, á laugardag.
Þingmenn demókrata hafa gagnrýnt framhleypni McConnel og fara fram á að þingmenn geti kynnt sér niðurstöðu skýrslunnar áður en ákvörðun er tekin um lokaatkvæðagreiðsluna.