Fá aðgang að skýrslunni í lokuðu rými

Öld­unga­deild Banda­ríkjaþings mun í dag fá í hend­urn­ar skýrslu FBI …
Öld­unga­deild Banda­ríkjaþings mun í dag fá í hend­urn­ar skýrslu FBI um meint kyn­ferðis­brot Brett Kavan­augh, dóm­ara­efn­is Don­alds Trump for­seta til Hæsta­rétt­ar. AFP

Þingmenn öldungadeildar Bandaríkjaþings munu í dag kynna sér niðurstöðu skýrslu alríkislögreglunnar, FBI, um um meint kyn­ferðis­brot Brett Kavan­augh, dóm­ara­efn­is Don­alds Trump for­seta til Hæsta­rétt­ar Bandaríkjanna.

Fyrirkomulagið verður með óhefðbundnum hætti en hver þingmaður fær ekki sitt eintak af skýrslunni, líkt og venjan er, heldur fá þingmenn flokkanna aðgang að skýrslunni í lokuðu öryggisrými. Þingflokkarnir munu skiptast á, klukkutíma í senn. Þá geta þingmenn einnig óskað eftir því að þeim verði gerð grein fyrir niðurstöðum skýrslunnar.

Kavan­augh hef­ur ít­rekað neitað öll­um ásök­un­um um kyn­ferðis­brot. Í nýrri skýrslu FBI var meðal annars rætt við fyrr­ver­andi bekkjar­syst­ur Kavan­augh úr Yale-há­skóla, De­borah Ramirez, að því er Reuters greinir frá. Ramirez seg­ir að Kavan­augh hafi berað kyn­færi sín og látið hana snerta þau í par­tíi. Í frétt Reu­ters seg­ir að Ramirez hafi af­hent lista með nöfn­um 20 vitna að þessu at­hæfi hans.

Segja ekkert nýtt koma fram í skýrslunni

Talsmenn Hvíta hússins hafa fengið afrit af viðtölum sem FBI tók vegna rannsóknarinnar og í yfirlýsingu sem send var öldungadeildaþingmönnum í nótt segir að niðurstöðurnar bendi til að ekki sé hægt að finna neitt í viðtölunum sem styðji ásakanir gegn Kavanaugh.

„Með þessum viðbótarupplýsingum er Hvíta húsið fullvisst um það að tilnefning Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara verði samþykkt,“ segir Raj Shah, talsmaður Hvíta hússins.

Leiðtogar repúblikana í öldungadeildinni vinna hörðum höndum að því að …
Leiðtogar repúblikana í öldungadeildinni vinna hörðum höndum að því að tilnefning Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara verði staðfest sem fyrst. AFP

Vilja staðfesta tilnefningu Kavanaugh sem fyrst

Leiðtogar repúblikana í öldungadeildinni vinna hörðum höndum að því að tilnefning Kavanaugh verði staðfest sem fyrst. Mitch McConn­el, leiðtogi re­públi­kana í öld­unga­deild­inni, hefur boðað til atkvæðagreiðslu á morgun um það hvort tilnefning Kavanaugh samræmist þingskaparlögum. Þetta tilkynnti hann áður en hann kynnti sér niðurstöðu skýrslunnar.

Ef atkvæðagreiðslan fer fram á morgun fara fram stuttar umræður um tilnefninguna áður en lokaatkvæðagreiðslan fer fram, sem gæti orðið strax daginn eftir, á laugardag.

Þingmenn demókrata hafa gagnrýnt framhleypni McConnel og fara fram á að þingmenn geti kynnt sér niðurstöðu skýrslunnar áður en ákvörðun er tekin um lokaatkvæðagreiðsluna.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert