Skýrsla FBI væntanleg

Öldungadeild Bandaríkjaþings mun innan skamms fá í hendurnar skýrslu alríkislögreglunnar, FBI, um meint kynferðisbrot Brett Kavanaugh, dómaraefnis Donalds Trump forseta til Hæstaréttar. Niðurstöður rannsóknar FBI verða ekki gerðar opinberar en þingmennirnir geta kynnt sér efni skýrslunnar í dag.

Kavanaugh hefur ítrekað neitað öllum ásökunum um kynferðisbrot. Mitch McConnel, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, vill að kosið verði um tilnefninguna á sunnudag. 

Í frétt BBC segir að FBI hafi áður kannað bakgrunn Kavanaugh vegna tilnefningarinnar. Hins vegar hafi stofnunin aftur hafið rannsókn í kjölfar ásakana Christine Blasey Ford um að Kavanaugh hefði brotið gegn henni á níunda áratugnum.

Níu dómarar sitja í Hæstarétti Bandaríkjanna og eru þeir skipaðir fyrir lífstíð. Þeir dæma í grundvallarmálum sem geta haft mikil áhrif á samfélagið hverju sinni.

Þingmennirnir sem sjá skýrsluna á eftir eiga ekki að greina frá innihaldi hennar opinberlega en koma mun í ljós hvort leyndin verði virt.

Reuters hefur greint frá því að fyrrverandi bekkjarsystir Kavanaugh úr Yale-háskóla, Deborah Ramirez, hafi verið yfirheyrð af fulltrúum FBI í yfir tvo tíma. Ramirez segir að Kavanaugh hafi berað kynfæri sín og látið hana snerta þau í partíi. Í frétt Reuters segir að Ramirez hafi afhent lista með nöfnum 20 vitna að þessu athæfi hans.

Í þessu herbergi þinghússins geta öldungadeildarþingmenn lesið skýrslu FBI um …
Í þessu herbergi þinghússins geta öldungadeildarþingmenn lesið skýrslu FBI um rannsókn á meintum kynferðisbrotum Kavanaughs. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert