Þúsundir kvenna mótmæltu í Washington

Konur mótmæla fyrir framan Trump-turninn í New York.
Konur mótmæla fyrir framan Trump-turninn í New York. AFP

Þúsundir kvenna tóku þátt í mótmælagöngu í Washington þar sem þær hvöttu þingmenn til að staðfesta ekki Brett Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara. Ein þeirra, Jessica Cathcart sem er 24 ára frá Kaliforníu, segir að háskólaprófessorinn Christine Blasey Ford hafi hvatt sig til að stíga fram og tala um kynferðislegt ofbeldi sem hún varð fyrir þegar hún var í menntaskóla.

AFP

Angela Trzepkowski, 55 ára frá Delaware, sagði að hún yrði eyðilögð ef Kavanaugh, sem Ford hefur sakað um nauðgun, verði kjörinn í embættið.

Talið er líklegt að kosningin fari fram á laugardaginn. Þúsundir manna ferðuðust víða að úr Bandaríkjunum til Washington til að taka þátt í mótmælunum. Sumir þeirra reyndu að ná tali af þingmönnum úr sínu ríki í von um að þeir komi í veg fyrir að Kavanaugh nái kjöri.

Héldu þær á skiltum þar sem meðal annars stóð: „Það verður að hlusta á konur“ og „Kava Nope“.

AFP

Yfir 20 milljónir Bandaríkjamanna fylgdust með því í beinni útsendingu í sjónvarpinu þegar Ford bar vitni fyrir framan þingmenn og sagði að Kavanaugh hefði ráðist á hana árið 1982 þegar þau voru bæði á táningsaldri.

Málið hefur skipt bandarísku þjóðinni í tvær fylkingar og aukið umræðuna um kynferðislegt ofbeldi og kröfuna um sönnunarbyrði vegna þess.

AFP

„Ég komst sjálf lífs af og ég sagði ekki mína sögu. Þetta gerðist í menntaskóla,“ sagði Cathcart. „Eftir að hafa séð vitnisburð Christine Blasey Ford og viðbrögðin við honum og viðbrögðin við vitnisburði hans, varð ég að koma hingað.“

„Ég trúi dr. Ford og ég tel að Kavanaugh sé hluti af gömlum strákaklúbbi sem ætlar að vernda hann, sama á hverju gengur,“ sagði Trzepkowski.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert