Hundruð mótmælenda við Hæstarétt Bandaríkjanna í Washington voru handtekin í gær. Þúsundir komu saman við dómshúsið og þinghúsið til að mótmæla tilnefningu Bretts Kavanaugh sem dómara við réttinn. Tvær konur hafa sakað Kavanaugh um kynferðislegt ofbeldi og áreitni og í gær gafst öldungadeildarþingmönnum færi á að skoða skýrslu alríkislögreglunnar, FBI, um rannsókn þeirra ásakana. Repúblikanar segja skýrsluna hreinsa Kavanaugh en demókratar segja skýrsluna ófullgerða, t.d. hafi hvorki Kavanaugh sjálfur verið yfirheyrður vegna rannsóknarinnar né önnur kvennanna sem sagði hann hafa beitt sig ofbeldi á níunda áratugnum.
Í dag mun sérstök dómaranefnd greiða atkvæði um tilnefninguna og á morgun mun svo öldungadeildin kjósa.
Eftir gærdaginn þykja meiri líkur en minni á því að Kavanaugh verði skipaður dómari við Hæstarétt landsins eftir að tveir repúblikanar, sem höfðu lýst yfir efasemdum um hann áður, skiptu um skoðun eftir lestur skýrslu FBI.
Í Hæstarétti Bandaríkjanna sitja níu dómarar og eru þeir skipaðir fyrir lífstíð. Verði Kavanaugh skipaður er hann talinn styrkja stöðu íhaldssamra afla við dómstólinn en Hæstiréttur tekur á grundvallarmálum samfélagsins, s.s. fóstureyðingum, vopnaeign og kosningalögum.
Kavanaugh segist hins vegar sjálfur vera hlutlaus og í grein í Wall Street Journal segist hann hafa farið fram úr sér er hann gaf vitnisburð sinn fyrir dómaranefnd öldungadeildarþingsins er hann sagði að ásakanir gegn sér væru skipulagðar og pólitísks eðlis. „Ég veit að ég var beittur og að ég sagði sumt sem ég hefði ekki átt að segja.“
Þúsundir mótmælenda, aðallega konur, streymdu um götur Washington í gær og héldu samstöðufund fyrir utan byggingu Hæstaréttar. Þar hrópuðu þær: „Kavanaugh verður að fara!“
Hópur fór svo inn í eina af byggingum þingsins og settist þar niður og neitaði að færa sig. Í þeim hópi var hin þekkta gamanleikkona Amy Schumer. Lögreglan handtók þennan hóp, 302 mótmælendur alls.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að skýrsla FBI hafi hreinsað Kavanaugh af öllum ásökunum um kynferðislegt ofbeldi og áreitni. Sagðist hann vonbetri nú en áður að hann verði dómari við Hæstarétt.
Í frétt BBC segir að við rannsókn FBI hafi verið rætt við vitni vegna ásakana Christine Blasey Ford sem segir Kavanaugh hafa ráðist á hana, haldið henni niðri og reynt að nauðga henni á níunda áratugnum. Ekki var rætt við hana sjálfa. Þá var einnig rætt við vitni vegna ásakana annarrar konu, Deboruh Ramirez, sem segir að Kavanaugh hafi berað kynfæri sín fyrir henni er þau voru nemendur við Yale-háskóla.
Kavanaugh hefur hafnað ásökunum kvennanna. „Í þessari rannsókn fundust engar vísbendingar um neitt misjafnt,“ sagði formaður dómaranefndar öldungadeildarþingsins, Chuck Grassley, í yfirlýsingu í gær.