Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti nú fyrir stuttu með naumum meirihluta að kosið verði um Brett Kavanaugh, dómaraefni Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem næsta hæstaréttardómara landsins. BBC greinir frá.
Kjörið í dag, svonefnt „cloture“, var eins konar prófsteinn á stuðninginn við Kavanaugh sem hefur sætt ásökunum um kynferðislegt ofbeldi af hálfu nokkurra kvenna.
Þingið mun svo kjósa um tilnefninguna á morgun og verða þá allra augu á fjórum öldungadeildarþingmönnum sem enn þykir óvíst hvort muni styðja Kavanaugh.
Meiri líkur þykja þó orðnar en minni á því að Kavanaugh verði skipaður dómari við Hæstarétt landsins eftir að tveir repúblikanar, sem höfðu lýst yfir efasemdum um hann áður, skiptu um skoðun eftir lestur skýrslu FBI um Kavanaugh í gær.
Í Hæstarétti Bandaríkjanna sitja níu dómarar og eru þeir skipaðir fyrir lífstíð. Verði Kavanaugh skipaður er hann talinn styrkja stöðu íhaldssamra afla við dómstólinn en Hæstiréttur tekur á grundvallarmálum samfélagsins, s.s. þungunarrofi, vopnaeign og kosningalögum.
Hundruð mótmælenda, sem ekki eru sáttir við dómaraefnið, söfnuðust saman í Washington í gær, til að mótmæla tilnefningunni.