Segir allar ásakanirnar uppspuna

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að allar ásakanir um kynferðisofbeldi á hendur Brett Kavanaugh séu uppspuni. 

Kavan­augh sór embættiseið sinn sem dóm­ari við Hæsta­rétt Banda­ríkj­anna á laugardag, aðeins tveimur klukkustundum eftir að öld­unga­deild­in samþykkti til­nefn­ingu Trumps á Kavan­augh með 50 at­kvæðum gegn 48 eft­ir mikl­ar umræður og mót­mæli gegn skip­un hans.

Eftir að Trump tilnefndi Kavanaugh í embættið stigu þrjár kon­ur fram og sökuðu hann um kyn­ferðisof­beldi þegar hann var ung­ling­ur og þegar hann stundaði nám við Yale-há­skóla. Tvær sögðust hafa orðið fyr­ir því sjálf­ar og ein orðið vitni að slíku.

Trump segist fordæma Demókrataflokkinn og fyrirætlanir hans um að Kavanaugh …
Trump segist fordæma Demókrataflokkinn og fyrirætlanir hans um að Kavanaugh verði sviptur embætti. AFP

Trump segist fordæma Demókrataflokkinn og fyrirætlanir hans um að Kavanaugh verði sviptur embætti (e. impeachment). „Maður sem gerði ekkert rangt, maður sem var neyddur í blekkingarleik sem var settur upp af demókrötum og lögmönnum þeirra, og núna vilja þeir svipta hann embættinu,“ sagði Trump við blaðamenn í Hvíta húsinu í dag, áður en hann hélt til Flórída.

„Að mínu mati er þetta móðgun við bandarísku þjóðina,“ bætti forsetinn við.

Trump spáir því jafnframt að demókratar muni bíða ósigur í komandi þingkosningum í nóvember, kosningum sem munu móta framtíð forsetaembættis hans.

Sérstök athöfn fer fram í Hvíta húsinu í kvöld í tilefni af embættistöku Kavanaugh. Á þriðjudag mun hann formlega taka sæti við Hæstarétt Bandaríkjanna. 

Frétt BBC

Þúsund­ir komu sam­an við dóms­húsið og þing­húsið um helgina til …
Þúsund­ir komu sam­an við dóms­húsið og þing­húsið um helgina til að mót­mæla til­nefn­ingu Bretts Kavan­augh sem dóm­ara við rétt­inn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert