Löfven spreytir sig við stjórnarmyndun

Stefan Löfven á kosningafundi í septembermánuði. Hann fær nú tækifæri …
Stefan Löfven á kosningafundi í septembermánuði. Hann fær nú tækifæri til þess að mynda ríkisstjórn undir sinni stjórn og byrjaði að ræða við aðra stjórnmálaleiðtoga í dag. AFP

Eins og búist hafði verið við fékk Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar og formaður Sósíaldemókrata, umboð til þess að spreyta sig við að mynda ríkisstjórn undir sinni stjórn, eftir að tilraunir Ulf Kristersson leiðtoga Moderatarna til þess sigldu í strand um helgina.

Löfven fékk stjórnarmyndunarumboðið á fundi með Anders Norlén þingforseta í gær og í dag hóf hann að ræða við formenn annarra flokka. Í því ferli verður ekki rætt við Svíþjóðardemókrata, samkvæmt frétt sænska ríkisútvarpsins, SVT.

Fyrstur á fund Löfvens í morgun var Ulf Kristersson, en sá fundur var snarpur. Fréttamaður SVT greinir frá því að Kristersson hafi komið að Sagerska-húsinu, húsakynnum forsætisráðherra, um kl. 10 að staðartíma og yfirgefið svæðið 20 mínútum síðar, út um bakdyr til að forðast fjölmiðlafólk.

Löfven hefur tvær vikur til þess að mynda starfhæfa ríkisstjórn í Svíþjóð, en sú er venjan við stjórnarmyndun í Svíþjóð. SVT segir að í raun hafi Löfven þó færri daga til þess að einbeita sér að verkefninu, þar sem hann hefur enn skyldum að gegna sem starfandi forsætisráðherra landsins. Hann þarf til dæmis að fara til Brussel á fund með öðrum leiðtogum Evrópusambandsins á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert