Sænskir hægrimenn klofnir

Formenn flokkanna fjögurra, sem standa að hægribandalaginu, héldu sameiginlega kosningafundi …
Formenn flokkanna fjögurra, sem standa að hægribandalaginu, héldu sameiginlega kosningafundi í aðdraganda kosninganna. AFP

Bandalag mið- og hægriflokka á sænska þinginu virðist sprungið eftir að formenn Miðflokksins og Frjálslynda flokksins lýstu því yfir að þingmenn flokkanna myndu ekki styðja Ulf Kristersson, formann hægriflokksins Moderaterna, þegar kosið verður um tilnefningu hans í embætti forsætisráðherra á morgun.

Forseti sænska þingsins, sem einnig kemur úr röðum Moderaterna, tilnefndi Kristersson í embættið í síðustu viku, en samkvæmt sænskri stjórnskipan er það í verkahring hans. Tilnefningin var þó óvenjuleg fyrir þær sakir að Kristersson hafði ekki tekist að tryggja sér meirihlutastuðning áður en að tilnefningunni kom.

Bandalag mið- og hægriflokka, Alliansen, tefldi Kristersson fram sem forsætisráðherraefni en flokkar þess, sem eru fjórir, hlutu 143 þingsæti af 349, rúm 40%, í kosningunum sem fram fóru í september.

Láta ekki Svíþjóðardemókrata taka sig í gíslingu

Flokkar bandalagsins höfðu allir tekið fyrir samstarf við þjóðernisflokkinn Svíþjóðardemókrata í aðdraganda kosninganna, en flokkurinn hlaut rúm 17% atkvæða og 63 þingsæti. Eftir misheppnaðar tilraunir bæði Kristerssons og Stefans Löfven, formanns Sósíaldemókrata, til að koma á samstarfi sem hefði meirihluta á bak við sig virðist þó sem Moderaterna hafi vonast til að þingmenn Svíþjóðardemókrata myndu kjósa með tilnefningu Kristerssons, án þess að eiga í samstarfi.

Annie Lööf, formaður Miðflokksins, segir í viðtali við sænska ríkisútvarpið óhjákvæmilegt að sú ríkisstjórn sem sé í kortunum yrði upp á náð og miskunn Svíþjóðardemókrata komin. „Ég vil ekki að við séum tekin í gíslingu,“ segir hún og kallar eftir samstarfi þvert á blokkirnar hægri- og vinstriflokka. Í sama streng hefur Stefan Löfven tekið, en Lööf tekur þó fram að þótt flokkur hennar greiði atkvæði gegn Kristersson á morgun jafngildi það ekki stuðningi við Löfven.

Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Moderaterna, er meðal þeirra sem hefur gagnrýnt ákvörðun Miðflokksins og Frjálslyndra. Segist hann ekki trúa því að Kristersson leyfi Svíþjóðardemókrötum að hafa áhrif á stefnu stjórnarinnar, þótt hann viðurkenni að flokkurinn muni sjálfsagt leitast eftir því.

„En besta leiðin fyrir Frjálslynda og Miðflokkinn til að koma í veg fyrir það, er jú að taka sjálf sæti í ríkisstjórninni,“ segir Bildt sem hefur sjálfur verið gagnrýninn á Svíþjóðardemókrata og mætti meðal annars Åkesson, formanni flokksins, í kappræðum um ágæti Evrópusambandsins í aðdraganda kosninganna.

Án stuðnings Miðflokksins og Frjálslyndra eygir Kristersson litla von um að hljóta stuðning þingsins, jafnvel þótt allur þingflokkur Svíþjóðardemókrata kysi með. Kosningin er fyrirhuguð klukkan átta í fyrramálið, að íslenskum tíma, en óvíst er hvort af henni verður í ljósi nýjustu vendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert