Hafna tilnefningu Kristersson

Andreas Norlén, þingforseti sænska þingsins, segist munu funda með formönnum …
Andreas Norlén, þingforseti sænska þingsins, segist munu funda með formönnum flokkanna á morgun um framhaldið. AFP

Sænska þingið hafnaði nú í morgun tilnefningu Ulf Kristers­son, formanns hægri­flokks­ins Modera­terna, í embætti forsætisráðherra. Rúmur helmingur þingmanna sagði nei við tillögunni og segir Dagens nyheter úrslitin söguleg. Aldrei áður hafi þingið hafnað tilnefningu þingforsetans.

Vangaveltur eru nú uppi um það hvort banda­lag mið- og hægri­flokka á sænska þing­inu sé sprungið, en for­menn Miðflokks­ins og Frjáls­lynda flokks­ins lýstu því yfir í gær að þing­menn flokk­anna myndu ekki styðja tilnefningu Kristers­son.

For­seti sænska þings­ins, sem einnig kem­ur úr röðum Modera­terna, til­nefndi Kristers­son í embættið í síðustu viku, en sam­kvæmt sænskri stjórn­skip­an er það í verka­hring hans. Til­nefn­ing­in þótti þó  óvenju­leg fyr­ir þær sak­ir að Kristers­son hafði ekki tek­ist að tryggja sér meiri­hlutastuðning áður en að til­nefn­ing­unni kom.

Sagði þingforsetinn, Andreas Norlén, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT að hann muni funda með flokksformönnum á morgun um næstu skref í málinu.

Samkvæmt sænskum lögum verða þingkosningar að fara fram í landinu á ný, sé tilnefningu þingforsetans hafnað fjórum sinnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert