Sænska þingið hafnaði nú í morgun tilnefningu Ulf Kristersson, formanns hægriflokksins Moderaterna, í embætti forsætisráðherra. Rúmur helmingur þingmanna sagði nei við tillögunni og segir Dagens nyheter úrslitin söguleg. Aldrei áður hafi þingið hafnað tilnefningu þingforsetans.
Vangaveltur eru nú uppi um það hvort bandalag mið- og hægriflokka á sænska þinginu sé sprungið, en formenn Miðflokksins og Frjálslynda flokksins lýstu því yfir í gær að þingmenn flokkanna myndu ekki styðja tilnefningu Kristersson.
Forseti sænska þingsins, sem einnig kemur úr röðum Moderaterna, tilnefndi Kristersson í embættið í síðustu viku, en samkvæmt sænskri stjórnskipan er það í verkahring hans. Tilnefningin þótti þó óvenjuleg fyrir þær sakir að Kristersson hafði ekki tekist að tryggja sér meirihlutastuðning áður en að tilnefningunni kom.
Sagði þingforsetinn, Andreas Norlén, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT að hann muni funda með flokksformönnum á morgun um næstu skref í málinu.
Samkvæmt sænskum lögum verða þingkosningar að fara fram í landinu á ný, sé tilnefningu þingforsetans hafnað fjórum sinnum.