Lögreglan beitti táragasi og sprautaði vatni til að dreifa hópi mótmælenda sem reyndu að komast inn fyrir öryggisgirðingu sem lögreglan hafði reist við Champs-Elysees í París, höfuðborg Frakklands í dag.
Þúsundir mótmælenda söfnuðust saman á götunni til að mótmæla hækkun á dísilgjaldi, sem stjórnvöld segja að sé mikilvæg skattlagning til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Mótmælendurnir klæðast allir skærgulum öryggisvestum og fara því ekki fram hjá neinum.
Mótmælin hófust fyrir viku og hana nú útvíkkað í mótmæli gegn Macron Frakklandsforseta.
Lögreglan segir að atvikin sem áttu sér stað í borginni í dag tengist aðkomu liðsmanna hægriöfgamanna sem hafi verið að áreita lögreglu og öryggissveitir.
Mótmælendur sáust losa gangstéttarhellur og reisa götuvirki.
Lögreglan segir að enginn þeirra hafi hins vegar náð að komast inn fyrir svæðið sem lögreglan hafði girt af við Place de la Concorde og neðri hluta Champs-Elysee, sem eru skammt frá forsetahöllinni.
Mótmælendur sem segjast hafa mætt til að mótmæla með friðsömum hætti hafa fordæmt aðgerðir lögreglu.