Átök í miðborg Parísar

AFP

Lög­regla beitti tára­gasi á mót­mæl­end­ur sem reyndu að brjót­ast yfir veg­ar­tálma sem komið var fyr­ir við Champs-Élysées  breiðgöt­una í morg­un. Hundruð taka þátt í mót­mæl­um í Par­ís í dag en upp­tök mót­mæl­anna má rekja til reiði fyr­ir hækk­un á eldsneyt­is­sköt­um. 

Mót­mæl­in ganga und­ir heit­inuGilet­sjaunes og er þar vísað til gulra vesta sem þeir klæðast en um er að ræða vesti sem eru skylda í öll­um bif­reiðum í Frakklandi. Mót­mæla­hóp­ur­inn hef­ur breyst að und­an­förnu,  bæði fækkað í hon­um og þau meira breyst í al­menn mót­mæli gegn for­seta lands­ins,Emm­anu­elMacron. 

Frá mótmælum í París í dag.
Frá mót­mæl­um í Par­ís í dag. AFP

Lög­reglu­menn eru klædd­ir varn­ar­búnaði og með hjálpa í ör­ygg­is­skyni en mót­mæl­end­ur helltu gulri máln­ingu yfir þá og köstuðu grjóti að þeim. 

Inn­an­rík­is­ráðherra Frakk­lands, Christophe Castaner, seg­ir að um 200 taki þátt í friðsam­leg­um mót­mæl­um á Champs-Élysées á meðan 1.500 æs­inga­menn standi þar fyr­ir utan og reyni að skapa tæki­færi til þess að beita of­beldi. 39 þeirra hafa verið hand­tekn­ir. 

For­svars­menn fyr­ir­tækja voru und­ir allt bún­ir og eru varn­ar­hlíf­ar við flest fyr­ir­tæki í ná­grenn­inu, svo sem banka, víbúðir og kaffi­hús á sama tíma og lykt af tára­gasi og reyk­ur ligg­ur yfir þessa miklu versl­un­ar­götu. Fáir neyt­end­ur hætta sér í að kaupa jóla­gjaf­ir á þessu svæði á meðan ástandið er svona, seg­ir í frétt­um franskra fjöl­miðla í morg­un. 

Mót­mæl­in hafa breiðst út til Belg­íu en fjöl­menn mót­mæli voru íBrus­sel í gær. 

AFP

Ágúst Ásgeirs­son, blaðamaður sem bú­sett­ur er í Frakklandi, fjallaði um mót­mæl­in í frétta­skýr­ingu í Morg­un­blaðinu á fimmtu­dag og fylg­ir hún hér fyr­ir neðan:

„Emm­anu­el Macron, for­seti Frakk­lands, var óviðbú­inn hinum of­beld­is­fullu mót­mæl­um í Par­ís gegn hækk­un skatta á eldsneyti. Hann sagði í viku­byrj­un að mót­mæl­in, sem staðið höfðu í tíu daga, gætu skaðað ímynd Frakk­lands út á við. Yrði stjórn sín að taka mið af gremju al­menn­ings. Hafnaði hann þó með öllu kröf­um svo­nefndra gul­vestunga um aft­ur­köll­un skatt­anna.

Hann seg­ist horfa til lengri og vist­vænni framtíðar með gjöld­un­um en mót­mæl­end­ur segj­ast hafa brýn­ar þarf­ir vegna krappra kjara og ekki geta leyft sér að hugsa lengra en til næstu mánaðamóta; ekki til jarðar­enda eins og for­set­inn.

AFP

Eft­ir átök­in var eins og á víg­velli um að lit­ast á vett­vangi bar­dag­anna í Par­ís. For­set­inn hef­ur freistað þess síðustu vik­urn­ar að snúa vax­andi óvin­sæld­um sín­um við. Stuðning­ur við Macron hef­ur hrunið og þykja mót­mæl­in hafa skaðað hann enn frek­ar. Á hon­um hafa dunið ásak­an­ir um að hann væri úr tengsl­um við al­menn­ing og barasta for­seti hinna ríku.

Macron þver­tók fyr­ir það í fyrra­dag að breyta stefn­unni og aft­ur­kalla skatta­hækk­un­ina, enda mun rík­is­sjóði ekki veita af tekj­un­um sem gjöld­in skila í kass­ann. Seg­ir for­set­inn þörf fyr­ir dísil- og bens­ínskatt­ana til að örva skipti yfir í græn­orku í sam­göng­um. Með því að fella skatt­ana niður græfi hann und­an um­hverf­is­stefnu stjórn­ar sinn­ar.

Í ræðunni boðaði hann þó þau ný­mæli að eldsneyt­is­gjöld­in yrðu breyt­an­leg til að eldsneytis­verðið héld­ist stöðugt. Hef­ur hann og sagst vilj­ug­ur til að draga úr áhrif­um verðhækk­ana á þá tekju­lægri. „Ég heyrði reiði ykk­ar,“ sagði for­set­inn og játaði að skatt­arn­ir væru ögn stjórn­laus­ir gagn­vart sveifl­um í olíu­verði. Hét hann breyt­ing­um á því til að lina áhrif­in á þá sem keyra þyrftu mikið og hefðu enga val­kosti sam­göng­um.

AFP

Al­var­leg­ur skell­ur

Fjár­málaráðherr­ann Bruno Le Maire seg­ir af­leiðing­ar mót­mæla gul­vestunga „al­var­leg­an skell“ fyr­ir franskt efna­hags­líf. Rösk­un­in hafi verið mik­il þótt en sé of snemmt að segja hverj­ar af­leiðing­arn­ar verði fyr­ir hag­vöxt­inn. Lokuðu mót­mæl­end­ur göt­um um allt land og tóku fyr­ir eða skertu aðgengi að birgðastöðvum eldsneyt­is, ein­angruðu versl­ana­keðjur og verk­smiðjur. Í versl­un­ar­miðstöðvum fækkaði heim­sókn­um til dæm­is um 15% sl. laug­ar­dag miðað við sama dag viku áður að sögn CNCC, regn­hlíf­ar­sam­taka versl­un­ar­miðstöðva. Helg­ina áður, á upp­hafs­degi mót­mæl­anna, komu 45% færri gest­ir í miðstöðvarn­ar. Le Maire sagði smá­sölu­versl­un­ina hafa orðið fyr­ir 35% tekjutapi fyrsta dag mót­mæl­anna og 18% sl. laug­ar­dag.

Til­trú franskra neyt­enda mæl­ist nú minni en nokkru sinni frá í fe­brú­ar 2015. Áhyggj­ur þeirra af at­vinnu­leysi og verðbólgu af völd­um verðhækk­ana á eldsneyti, sem marg­ir segja skerða kaup­mátt sinn, hafa stór­auk­ist.

 „Eins og Lúðvík fjór­tándi“

Macron lét mót­mæl­in af­skipta­laus fyrstu vik­una en greip síðan til Twitter-sam­fé­lags­miðils­ins og gagn­rýndi harðlega of­beldið í Par­ís síðastliðinn laug­ar­dag. Þeir sem ábyrgð á þeim bæru skyldu skömm af hafa, sagði for­set­inn.

Macron hef­ur sætt gagn­rýni fyr­ir hroka og þótt kulda­leg­ur í fram­komu. Hon­um sé gjarnt að tala niður til fólks­ins. „Þegar þú hegðar þér eins og Lúðvík fjór­tándi get­urðu bú­ist við upp­reisn. Frakk­ar standa með gul­vestung­um því Macron lofaði þeim nýj­um heimi. En þeir sjá að stefna hans er ekki að skila betri ver­öld,“ sagði Bruno Retail­leau, leiðtogi Re­públi­kana­flokks­ins í öld­unga­deild franska þings­ins, í blaðinu Journal du Di­manche. Hann sagði þjóðina líta á um­hverf­is­rök­in fyr­ir eldsneyt­is­skött­un­um sem sýnd­ar­ástæðu til að herða sultaról al­menn­ings.

Macron var kjör­inn for­seti út á lof­orð um að nú­tíma­væða efna­hags­lífið. Hann á nú á bratt­ann að sækja vegna óþol­in­mæði kjós­enda sem kveðast enn bíða eft­ir því að sjá ábata breyt­inga.

AFP

 25% stuðning­ur

Vin­sæld­ir Emm­anu­els Macrons hafa dvínað óvenju hratt und­an­farna mánuði. Nýt­ur hann nú ein­ung­is trausts 25% þjóðar­inn­ar sam­kvæmt skoðana­könn­un Ifop-stofn­un­ar­inn­ar sem birt var sunnu­dag­inn 18. nóv­em­ber, dag­inn eft­ir upp­haf mót­mæla gul­vestunga á göt­um úti. Grein­end­ur segja niður­stöðuna end­ur­spegla út­breidd og al­menn von­brigði með hinn fer­tuga for­seta. Minnkaði stuðning­ur við hann á ein­um mánuði um fjög­ur pró­sentu­stig, en könn­un­in var gerð 9. til 17. nóv­em­ber.

Fyr­ir utan 25% sem sögðust „afar sátt“ við Macron sagðist 21% vera „til­tölu­lega sátt“. Til­tölu­lega ósátt voru 34% og afar ósátt voru 39%. Fjót­lega eft­ir kosn­ingu hans í maí í fyrra tóku stuðnings­menn for­set­ans að snúa við hon­um baki. Hef­ur hert á þeirri þróun síðasta hálfa árið. Niðurstaða Ifop-könn­un­ar­inn­ar þykir renna frek­ari stoðum und­ir flótt­ann og kann­an­ir annarra hug­veitna eru í sömu átt. Þessi þróun er í takt við það sem tveir for­ver­ar Macron máttu upp­lifa. Á sama tíma, hálfu öðru ári eft­ir kosn­ing­ar, var stuðning­ur við Franco­is Hollande hrun­inn niður í 20% og Nicolas Sar­kozy fall­inn í 44%.

Fá­tækt dreif­býl­is­fólk

Að stór­um hluta eru gul­vestung­ar úr dreif­býli, þar sem hús­næði er ódýr­ara en í borg­um og kaupið lægra. Stjórn­mála­skýrend­ur segja hreyf­ing­una at­hygl­is­verða sak­ir þess að hún hafi verið höfuðlaus her sem skipu­lagt hafi sig á sam­fé­lags­miðlum. Vegna þessa hafa kröf­ur gul­vestunga verið frem­ur óform­leg­ar; ókrist­allaðar. Þeim finnst þeir hafa verið af­skipt­ir og vera fórn­ar­lömb ákv­arðana stjórn­málaelít­unn­ar í Par­ís. Þetta fólk nýt­ur yf­ir­leitt lágra launa og hef­ur verið for­set­an­um sér­deil­is reitt fyr­ir að hækka eldsneyt­is­skatta sem bíta það beint. Það gagn­rýn­ir og hart niður­fell­ingu auðlegðarskatts hinna ríku og fast­eigna­skatta. Þetta fólk kemst ekki af án bíls til út­rétt­inga og til að sækja vinnu. Í byggðum þeirra nýt­ur hvorki al­menn­ings­sam­gangna við né annarr­ar op­in­berr­ar þjón­ustu. Keyra verði eft­ir henni tugi kíló­metra og annað eins til að stunda vinnu. Get­ur verið um tuga kíló­metra óhjá­kvæmi­leg­an akst­ur að ræða hjá þeim á degi hverj­um. Vegna auk­ins kostnaðar við akst­ur­inn hef­ur stærri skerf­ur heim­ilistekn­anna farið í eldsneytis­kaup. Kvarta marg­ir og segja aldrei hafa verið eins erfitt að draga fram lífið og nú. Því vilja þeir að eldsneyt­is­skatt­arn­ir verði aflagðir. Þeir kalla og eft­ir auk­inni fé­lags­legri aðstoð handa þeim tekjuminnstu og síðast en ekki síst hafa gul­vestung­ar kraf­ist af­sagn­ar Macrons.

AFP

Gulu vest­in sem mót­mæl­end­ur skrýdd­ust voru tákn mót­mæl­anna. Í ör­ygg­is­skyni er skylt að hafa þau í öll­um bíl­um ef t.d. leggja þyrfti þeim á veg­arkanti vegna bil­un­ar eða til að skipta um loft­laust dekk. Í aðdrag­anda mót­mæla gul­vestunga reyndi rík­is­stjórn­in að draga úr spenn­unni með ráðstöf­un­um sem áttu að auðvelda tekjum­inni fjöl­skyld­um og hóp­um að borga eldsneyt­is­reikn­inga sína. Það hafði hún dregið of lengi því aðgerðirn­ar breyttu engu um staðfestu mót­mæl­enda.

Raðir riðlast

Lög­regl­an áætlaði að um 283.000 manns hefðu tekið þátt í mót­mæl­um gul­vestunga um land allt á fyrsta degi. Eft­ir það dró úr þátt­tök­unni og voru sára­fá­ir enn að nú í viku­byrj­un. Enn var í gær haldið úti vega­lok­un­um á stöku stað en áhrif þess voru afar staðbund­in. Voru raðir gul­vestunga farn­ar að riðlast og ágrein­ing­ur um hverj­ir réðu ferðinni í óform­leg­um sam­tök­um kom upp á yf­ir­borðið.

Fyrstu daga mót­mæl­anna nutu gul­vestung­ar stuðnings stærri skerfs Frakka en önn­ur sam­tök sem andæft hafa Macron frá því hann var kjör­inn Frakk­lands­for­seti í maí í fyrra. Full­trú­ar stjórn­ar­and­stöðunn­ar hafa hamrað á hinum al­menna stuðningi við mót­mæl­in. Fyr­ir þeim stóð ómótuð grasrót­ar­hreyf­ing sem varð til með sam­blæstri óánægjuradda á sam­fé­lags­miðlum. Voru þess­ir miðlar brúkaðir til að skipu­leggja og stýra aðgerðum. Eru þetta fyrstu fjöl­mennu mót­mæl­in í Frakklandi sem stjórn­mála­flokk­ar og/​eða stétt­ar­fé­lög standa ekki á bak við. „Þegar hreyf­ing nýt­ur stuðnings 75% þjóðar­inn­ar verður að svara kröf­um henn­ar. Það geng­ur ekki að af­skrifa hóp­inn sem fanta­gengi,“ sagði Oli­vier Faure, leiðtogi Sósí­al­ista­flokks­ins, við blaðið Le Parisien.

AFP

Ljótt um að lit­ast á fal­leg­ustu göt­unni

Kveikt var í veg­ar­tálm­um, rúður brotn­ar í versl­un­um með lúxusvarn­ing og um­ferðarljós rif­in upp með rót­um á Ei­lífðar­völl­um, Champs-Élysées-breiðgöt­unni í Par­ís. Of­beld­is­full­ir hóp­ar laumuðu sér inn í miklu stærri hóp friðsam­legra mót­mæl­enda og stóðu fyr­ir skemmd­ar­verk­um. Í átök­um skaut lög­regla rúm­lega 5.000 tára­gassprengj­um á fræg­ustu götu Par­ís­ar og slökkviliðsmenn slökktu á annað hundruð bála. Stór­brotn­ar ljós- og kvik­mynd­ir af at­b­urðunum og af­leiðing­um þeirra voru birt­ar um all­ar jarðir.

AFP

„Menn skyldu ekki van­meta áfallið sem fólk í Frakklandi og í út­lönd­um verður fyr­ir að sjá í fjöl­miðlum það sem helst líkt­ist stríðsvett­vangi,“ var Macron sagður hafa sagt á rík­is­stjórn­ar­fundi. Hann gagn­rýndi þar kjörna full­trúa og álits­gjafa fyr­ir að verja fram­ferði „skemmd­ar­varga“ sem blésu til of­beldisaðgerðanna í Par­ís, að sögn tals­manns for­set­ans, Benjam­in Gri­veaux. „Að baki reiði fólks­ins er aug­ljós­lega eitt­hvað sem rist­ir enn dýpra og við henni þurf­um við að bregðast. Því þessi reiði, þess­ar áhyggj­ur hafa verið lengi fyr­ir hendi,“ bætti hann við.

Minnk­un kaup­mátt­ar meg­in­or­sök­in

Minnk­un kaup­mátt­ar er meg­in­or­sök mót­mæla gul­vestunga en Frakk­land er ný­komið út úr stíf­um efna­hags­leg­um aðhaldsaðgerðum og er efna­hag­ur lands­ins enn í lægð. Þrátt fyr­ir hækk­un olíu­verðs síðustu tólf mánuðina úr 60 doll­ur­um í 85 doll­ara ákvað stjórn Macrons samt að hækka eldsneyt­is­skatt­inn frá og með 1. janú­ar 2019. Þótt það segi aðeins til sín hjá bí­leig­end­um og þeim bet­ur settu en snerti tæp­ast þorra fólks sem ferðast með al­menn­ings­sam­göng­um til og frá vinnu, þá vakn­ar spurn­ing­in hvers vegna hækk­un­in ýtti und­ir hin miklu mót­mæli.

AFP

Ein skýr­ing­in er að kaup­mátt­ur launa hef­ur ekki auk­ist í takt við launa­hækk­an­ir á al­menn­um vinnu­markaði und­an­far­in ár. Það varð til þess að Nicolas Sar­kozy náði ekki end­ur­kjöri 2012 en í kosn­inga­bar­átt­unni 2007 var það meg­in­stef hans að efla kaup­mátt­inn; verða for­seti kaup­mátt­ar­ins, eins og hann orðaði það. Arf­taka hans, Franco­is Hollande, biðu sömu ör­lög, af sömu rót­um; efna­hags­leg stöðnun þar sem hvorki var hægt að hækka al­menn laun né efla kaup­mátt þeirra. Segja stjórn­mála­skýrend­ur því að svo lengi sem kaup­mátt­ur­inn eykst ekki verði frek­ari um­bæt­ur í efna­hags­líf­inu byrði fyr­ir Frakka.

 Ógnir at­vinnu­leys­is­ins

At­vinnu­stigið er önn­ur meg­in­or­sök mót­mæl­anna. Það er hærra en nokkru sinni frá upp­hafi evr­ópsku skuldakrepp­unn­ar 2009 og at­vinnu­leysið fór niður fyr­ir 10% í fyrsta sinn. Hins veg­ar hef­ur sam­setn­ing at­vinnu­lausra breyst frá 2009, bæði eft­ir at­vinnu­grein­um og kyn­ferði. Lít­ils­hátt­ar minnk­un at­vinnu­leys­is er ekki sögð duga til að bæta stöðuna á at­vinnu­markaði í heild. Og meðan at­vinnu­leys­is­stigið lækk­ar ekki nóg­sam­lega munu frek­ari um­bæt­ur hafa lít­il áhrif til hins betra. Þessu til viðbót­ar hef­ur verið straum­ur hæfi­leika­manna, auðmanna og fólks með sér­hæfða þekk­ingu úr landi. Hef­ur það og aukið á vanda fransks efna­hags­lífs og sam­fé­lags og hamlað um­bót­um.

AFP

Rík­is­stjórn­in skellti skuld­inni af mót­mæl­un­um í Par­ís á hægri öfga­menn og sætti gagn­rýni fyr­ir. Fjár­lagaráðherr­ann Ger­ald Dar­man­in kallaði yfir sig harða gagn­rýni er hann sagði mót­mæl­end­ur ekki gul­vestunga held­ur „brúnu plág­una“ en þar skír­skotaði hann til of­beld­is­sveita nas­ista.

Guillaume Peltier, áhrifamaður í Re­públi­kana­flokkn­um, sagði það alltof ein­falt að brenni­merkja gul­vestunga og kenna þeim og hreyf­ingu þeirra um óá­sætt­an­leg at­vik í mót­mæl­un­um.

Leiðtogi Þjóðar­hreyf­ing­ar­inn­ar, Mar­ine Le Pen, lýsti stuðningi við mót­mæl­end­ur og sagði aðgerðir þeirra „end­ur­spegla gremju veru­lega mik­ils meiri­hluta þjóðar­inn­ar sem gengið væri fram­hjá af hálfu lít­ils hóps sem hugsaði bara um sjálf­an sig“.

Úr tengsl­um við þjóðina

Macron hef­ur þótt úr tengsl­um við þjóð sína sem upp til hópa lifi hóf­læt­is­lífi á lands­byggðinni, utan stór­borg­anna. Þar sé raun­veru­leik­inn ann­ar en í Par­ís. Hann hef­ur sætt gagn­rýni fyr­ir að láta alþjóðamál til sín taka í stað þess að fást við end­ur­reisn heima fyr­ir. Er­lend­is hef­ur hann sætt gagn­rýni fyr­ir að vilja segja öðrum fyr­ir verk­um og hafa í hót­un­um, til dæm­is í mál­efn­um ESB og Brex­it. Ræða hans úr Élysée-höll í fyrra­dag þótti frek­ar eiga við tæknikrata en þjóðhöfðingja. Á er­lend­um vett­vangi hef­ur hon­um ekki orðið veru­lega ágengt. Ný­leg­ar til­lög­ur hans um stofn­un Evr­ópu­hers hafa aðeins Ang­ela Merkel kansl­ari Þýska­lands og Vla­dímír Pútín Rúss­lands­for­seti tekið und­ir, en aðrir hafnað. Í rök­stuðningi fyr­ir stofn­un sveit­anna sagði Macron rúss­nesku ógn­ina kalla á her­inn.

AFP

Macron var starfsmaður fjár­fest­ing­ar­banka áður en hann datt inn í stjórn­mál­in sem ráðgjafi Hollande for­seta. Hann sneri baki við hon­um og var kos­inn for­seti í maí 2017 út á lof­orð um að bæta kjör launþega. Þeir fengju meira í vas­ann, boðaði hann. Hann hét því einnig að end­ur­reisa traust al­menn­ings á stjórn­mál­in. Mót­mæl­in þykja hins veg­ar end­ur­spegla víðtæka gremju kjós­enda í garð stefnu hans sem sögð hef­ur verið í þágu fyr­ir­tækja og stjórn­málaelít­unn­ar. For­set­inn þótti lofa góðu í upp­hafi setu sinn­ar á valda­stóli. Það hef­ur hins veg­ar breyst til­tölu­lega hratt. Er hann nú lemstraður vegna al­mennr­ar óánægju kjós­enda með um­bæt­ur sem enn hafa ekki bætt hag þeirra. Um­bæt­ur hans í þágu fyr­ir­tækja og viðskipta­lífs­ins og áhersl­an á at­vinnu­stigið og kaup­mátt tekna hafa enn sem komið er skilað tak­mörkuðum ár­angri. Í því ligg­ur óánægj­an sem dró fólk á göt­ur út.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert