Átök í miðborg Parísar

AFP

Lögregla beitti táragasi á mótmælendur sem reyndu að brjótast yfir vegartálma sem komið var fyrir við Champs-Élysées  breiðgötuna í morgun. Hundruð taka þátt í mótmælum í París í dag en upptök mótmælanna má rekja til reiði fyrir hækkun á eldsneytisskötum. 

Mótmælin ganga undir heitinuGiletsjaunes og er þar vísað til gulra vesta sem þeir klæðast en um er að ræða vesti sem eru skylda í öllum bifreiðum í Frakklandi. Mótmælahópurinn hefur breyst að undanförnu,  bæði fækkað í honum og þau meira breyst í almenn mótmæli gegn forseta landsins,EmmanuelMacron. 

Frá mótmælum í París í dag.
Frá mótmælum í París í dag. AFP

Lögreglumenn eru klæddir varnarbúnaði og með hjálpa í öryggisskyni en mótmælendur helltu gulri málningu yfir þá og köstuðu grjóti að þeim. 

Innanríkisráðherra Frakklands, Christophe Castaner, segir að um 200 taki þátt í friðsamlegum mótmælum á Champs-Élysées á meðan 1.500 æsingamenn standi þar fyrir utan og reyni að skapa tækifæri til þess að beita ofbeldi. 39 þeirra hafa verið handteknir. 

Forsvarsmenn fyrirtækja voru undir allt búnir og eru varnarhlífar við flest fyrirtæki í nágrenninu, svo sem banka, víbúðir og kaffihús á sama tíma og lykt af táragasi og reykur liggur yfir þessa miklu verslunargötu. Fáir neytendur hætta sér í að kaupa jólagjafir á þessu svæði á meðan ástandið er svona, segir í fréttum franskra fjölmiðla í morgun. 

Mótmælin hafa breiðst út til Belgíu en fjölmenn mótmæli voru íBrussel í gær. 

AFP

Ágúst Ásgeirsson, blaðamaður sem búsettur er í Frakklandi, fjallaði um mótmælin í fréttaskýringu í Morgunblaðinu á fimmtudag og fylgir hún hér fyrir neðan:

„Emmanuel Macron, forseti Frakklands, var óviðbúinn hinum ofbeldisfullu mótmælum í París gegn hækkun skatta á eldsneyti. Hann sagði í vikubyrjun að mótmælin, sem staðið höfðu í tíu daga, gætu skaðað ímynd Frakklands út á við. Yrði stjórn sín að taka mið af gremju almennings. Hafnaði hann þó með öllu kröfum svonefndra gulvestunga um afturköllun skattanna.

Hann segist horfa til lengri og vistvænni framtíðar með gjöldunum en mótmælendur segjast hafa brýnar þarfir vegna krappra kjara og ekki geta leyft sér að hugsa lengra en til næstu mánaðamóta; ekki til jarðarenda eins og forsetinn.

AFP

Eftir átökin var eins og á vígvelli um að litast á vettvangi bardaganna í París. Forsetinn hefur freistað þess síðustu vikurnar að snúa vaxandi óvinsældum sínum við. Stuðningur við Macron hefur hrunið og þykja mótmælin hafa skaðað hann enn frekar. Á honum hafa dunið ásakanir um að hann væri úr tengslum við almenning og barasta forseti hinna ríku.

Macron þvertók fyrir það í fyrradag að breyta stefnunni og afturkalla skattahækkunina, enda mun ríkissjóði ekki veita af tekjunum sem gjöldin skila í kassann. Segir forsetinn þörf fyrir dísil- og bensínskattana til að örva skipti yfir í grænorku í samgöngum. Með því að fella skattana niður græfi hann undan umhverfisstefnu stjórnar sinnar.

Í ræðunni boðaði hann þó þau nýmæli að eldsneytisgjöldin yrðu breytanleg til að eldsneytisverðið héldist stöðugt. Hefur hann og sagst viljugur til að draga úr áhrifum verðhækkana á þá tekjulægri. „Ég heyrði reiði ykkar,“ sagði forsetinn og játaði að skattarnir væru ögn stjórnlausir gagnvart sveiflum í olíuverði. Hét hann breytingum á því til að lina áhrifin á þá sem keyra þyrftu mikið og hefðu enga valkosti samgöngum.

AFP

Alvarlegur skellur

Fjármálaráðherrann Bruno Le Maire segir afleiðingar mótmæla gulvestunga „alvarlegan skell“ fyrir franskt efnahagslíf. Röskunin hafi verið mikil þótt en sé of snemmt að segja hverjar afleiðingarnar verði fyrir hagvöxtinn. Lokuðu mótmælendur götum um allt land og tóku fyrir eða skertu aðgengi að birgðastöðvum eldsneytis, einangruðu verslanakeðjur og verksmiðjur. Í verslunarmiðstöðvum fækkaði heimsóknum til dæmis um 15% sl. laugardag miðað við sama dag viku áður að sögn CNCC, regnhlífarsamtaka verslunarmiðstöðva. Helgina áður, á upphafsdegi mótmælanna, komu 45% færri gestir í miðstöðvarnar. Le Maire sagði smásöluverslunina hafa orðið fyrir 35% tekjutapi fyrsta dag mótmælanna og 18% sl. laugardag.

Tiltrú franskra neytenda mælist nú minni en nokkru sinni frá í febrúar 2015. Áhyggjur þeirra af atvinnuleysi og verðbólgu af völdum verðhækkana á eldsneyti, sem margir segja skerða kaupmátt sinn, hafa stóraukist.

 „Eins og Lúðvík fjórtándi“

Macron lét mótmælin afskiptalaus fyrstu vikuna en greip síðan til Twitter-samfélagsmiðilsins og gagnrýndi harðlega ofbeldið í París síðastliðinn laugardag. Þeir sem ábyrgð á þeim bæru skyldu skömm af hafa, sagði forsetinn.

Macron hefur sætt gagnrýni fyrir hroka og þótt kuldalegur í framkomu. Honum sé gjarnt að tala niður til fólksins. „Þegar þú hegðar þér eins og Lúðvík fjórtándi geturðu búist við uppreisn. Frakkar standa með gulvestungum því Macron lofaði þeim nýjum heimi. En þeir sjá að stefna hans er ekki að skila betri veröld,“ sagði Bruno Retailleau, leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeild franska þingsins, í blaðinu Journal du Dimanche. Hann sagði þjóðina líta á umhverfisrökin fyrir eldsneytissköttunum sem sýndarástæðu til að herða sultaról almennings.

Macron var kjörinn forseti út á loforð um að nútímavæða efnahagslífið. Hann á nú á brattann að sækja vegna óþolinmæði kjósenda sem kveðast enn bíða eftir því að sjá ábata breytinga.

AFP

 25% stuðningur

Vinsældir Emmanuels Macrons hafa dvínað óvenju hratt undanfarna mánuði. Nýtur hann nú einungis trausts 25% þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnun Ifop-stofnunarinnar sem birt var sunnudaginn 18. nóvember, daginn eftir upphaf mótmæla gulvestunga á götum úti. Greinendur segja niðurstöðuna endurspegla útbreidd og almenn vonbrigði með hinn fertuga forseta. Minnkaði stuðningur við hann á einum mánuði um fjögur prósentustig, en könnunin var gerð 9. til 17. nóvember.

Fyrir utan 25% sem sögðust „afar sátt“ við Macron sagðist 21% vera „tiltölulega sátt“. Tiltölulega ósátt voru 34% og afar ósátt voru 39%. Fjótlega eftir kosningu hans í maí í fyrra tóku stuðningsmenn forsetans að snúa við honum baki. Hefur hert á þeirri þróun síðasta hálfa árið. Niðurstaða Ifop-könnunarinnar þykir renna frekari stoðum undir flóttann og kannanir annarra hugveitna eru í sömu átt. Þessi þróun er í takt við það sem tveir forverar Macron máttu upplifa. Á sama tíma, hálfu öðru ári eftir kosningar, var stuðningur við Francois Hollande hruninn niður í 20% og Nicolas Sarkozy fallinn í 44%.

Fátækt dreifbýlisfólk

Að stórum hluta eru gulvestungar úr dreifbýli, þar sem húsnæði er ódýrara en í borgum og kaupið lægra. Stjórnmálaskýrendur segja hreyfinguna athyglisverða sakir þess að hún hafi verið höfuðlaus her sem skipulagt hafi sig á samfélagsmiðlum. Vegna þessa hafa kröfur gulvestunga verið fremur óformlegar; ókristallaðar. Þeim finnst þeir hafa verið afskiptir og vera fórnarlömb ákvarðana stjórnmálaelítunnar í París. Þetta fólk nýtur yfirleitt lágra launa og hefur verið forsetanum sérdeilis reitt fyrir að hækka eldsneytisskatta sem bíta það beint. Það gagnrýnir og hart niðurfellingu auðlegðarskatts hinna ríku og fasteignaskatta. Þetta fólk kemst ekki af án bíls til útréttinga og til að sækja vinnu. Í byggðum þeirra nýtur hvorki almenningssamgangna við né annarrar opinberrar þjónustu. Keyra verði eftir henni tugi kílómetra og annað eins til að stunda vinnu. Getur verið um tuga kílómetra óhjákvæmilegan akstur að ræða hjá þeim á degi hverjum. Vegna aukins kostnaðar við aksturinn hefur stærri skerfur heimilisteknanna farið í eldsneytiskaup. Kvarta margir og segja aldrei hafa verið eins erfitt að draga fram lífið og nú. Því vilja þeir að eldsneytisskattarnir verði aflagðir. Þeir kalla og eftir aukinni félagslegri aðstoð handa þeim tekjuminnstu og síðast en ekki síst hafa gulvestungar krafist afsagnar Macrons.

AFP

Gulu vestin sem mótmælendur skrýddust voru tákn mótmælanna. Í öryggisskyni er skylt að hafa þau í öllum bílum ef t.d. leggja þyrfti þeim á vegarkanti vegna bilunar eða til að skipta um loftlaust dekk. Í aðdraganda mótmæla gulvestunga reyndi ríkisstjórnin að draga úr spennunni með ráðstöfunum sem áttu að auðvelda tekjuminni fjölskyldum og hópum að borga eldsneytisreikninga sína. Það hafði hún dregið of lengi því aðgerðirnar breyttu engu um staðfestu mótmælenda.

Raðir riðlast

Lögreglan áætlaði að um 283.000 manns hefðu tekið þátt í mótmælum gulvestunga um land allt á fyrsta degi. Eftir það dró úr þátttökunni og voru sárafáir enn að nú í vikubyrjun. Enn var í gær haldið úti vegalokunum á stöku stað en áhrif þess voru afar staðbundin. Voru raðir gulvestunga farnar að riðlast og ágreiningur um hverjir réðu ferðinni í óformlegum samtökum kom upp á yfirborðið.

Fyrstu daga mótmælanna nutu gulvestungar stuðnings stærri skerfs Frakka en önnur samtök sem andæft hafa Macron frá því hann var kjörinn Frakklandsforseti í maí í fyrra. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa hamrað á hinum almenna stuðningi við mótmælin. Fyrir þeim stóð ómótuð grasrótarhreyfing sem varð til með samblæstri óánægjuradda á samfélagsmiðlum. Voru þessir miðlar brúkaðir til að skipuleggja og stýra aðgerðum. Eru þetta fyrstu fjölmennu mótmælin í Frakklandi sem stjórnmálaflokkar og/eða stéttarfélög standa ekki á bak við. „Þegar hreyfing nýtur stuðnings 75% þjóðarinnar verður að svara kröfum hennar. Það gengur ekki að afskrifa hópinn sem fantagengi,“ sagði Olivier Faure, leiðtogi Sósíalistaflokksins, við blaðið Le Parisien.

AFP

Ljótt um að litast á fallegustu götunni

Kveikt var í vegartálmum, rúður brotnar í verslunum með lúxusvarning og umferðarljós rifin upp með rótum á Eilífðarvöllum, Champs-Élysées-breiðgötunni í París. Ofbeldisfullir hópar laumuðu sér inn í miklu stærri hóp friðsamlegra mótmælenda og stóðu fyrir skemmdarverkum. Í átökum skaut lögregla rúmlega 5.000 táragassprengjum á frægustu götu Parísar og slökkviliðsmenn slökktu á annað hundruð bála. Stórbrotnar ljós- og kvikmyndir af atburðunum og afleiðingum þeirra voru birtar um allar jarðir.

AFP

„Menn skyldu ekki vanmeta áfallið sem fólk í Frakklandi og í útlöndum verður fyrir að sjá í fjölmiðlum það sem helst líktist stríðsvettvangi,“ var Macron sagður hafa sagt á ríkisstjórnarfundi. Hann gagnrýndi þar kjörna fulltrúa og álitsgjafa fyrir að verja framferði „skemmdarvarga“ sem blésu til ofbeldisaðgerðanna í París, að sögn talsmanns forsetans, Benjamin Griveaux. „Að baki reiði fólksins er augljóslega eitthvað sem ristir enn dýpra og við henni þurfum við að bregðast. Því þessi reiði, þessar áhyggjur hafa verið lengi fyrir hendi,“ bætti hann við.

Minnkun kaupmáttar meginorsökin

Minnkun kaupmáttar er meginorsök mótmæla gulvestunga en Frakkland er nýkomið út úr stífum efnahagslegum aðhaldsaðgerðum og er efnahagur landsins enn í lægð. Þrátt fyrir hækkun olíuverðs síðustu tólf mánuðina úr 60 dollurum í 85 dollara ákvað stjórn Macrons samt að hækka eldsneytisskattinn frá og með 1. janúar 2019. Þótt það segi aðeins til sín hjá bíleigendum og þeim betur settu en snerti tæpast þorra fólks sem ferðast með almenningssamgöngum til og frá vinnu, þá vaknar spurningin hvers vegna hækkunin ýtti undir hin miklu mótmæli.

AFP

Ein skýringin er að kaupmáttur launa hefur ekki aukist í takt við launahækkanir á almennum vinnumarkaði undanfarin ár. Það varð til þess að Nicolas Sarkozy náði ekki endurkjöri 2012 en í kosningabaráttunni 2007 var það meginstef hans að efla kaupmáttinn; verða forseti kaupmáttarins, eins og hann orðaði það. Arftaka hans, Francois Hollande, biðu sömu örlög, af sömu rótum; efnahagsleg stöðnun þar sem hvorki var hægt að hækka almenn laun né efla kaupmátt þeirra. Segja stjórnmálaskýrendur því að svo lengi sem kaupmátturinn eykst ekki verði frekari umbætur í efnahagslífinu byrði fyrir Frakka.

 Ógnir atvinnuleysisins

Atvinnustigið er önnur meginorsök mótmælanna. Það er hærra en nokkru sinni frá upphafi evrópsku skuldakreppunnar 2009 og atvinnuleysið fór niður fyrir 10% í fyrsta sinn. Hins vegar hefur samsetning atvinnulausra breyst frá 2009, bæði eftir atvinnugreinum og kynferði. Lítilsháttar minnkun atvinnuleysis er ekki sögð duga til að bæta stöðuna á atvinnumarkaði í heild. Og meðan atvinnuleysisstigið lækkar ekki nógsamlega munu frekari umbætur hafa lítil áhrif til hins betra. Þessu til viðbótar hefur verið straumur hæfileikamanna, auðmanna og fólks með sérhæfða þekkingu úr landi. Hefur það og aukið á vanda fransks efnahagslífs og samfélags og hamlað umbótum.

AFP

Ríkisstjórnin skellti skuldinni af mótmælunum í París á hægri öfgamenn og sætti gagnrýni fyrir. Fjárlagaráðherrann Gerald Darmanin kallaði yfir sig harða gagnrýni er hann sagði mótmælendur ekki gulvestunga heldur „brúnu pláguna“ en þar skírskotaði hann til ofbeldissveita nasista.

Guillaume Peltier, áhrifamaður í Repúblikanaflokknum, sagði það alltof einfalt að brennimerkja gulvestunga og kenna þeim og hreyfingu þeirra um óásættanleg atvik í mótmælunum.

Leiðtogi Þjóðarhreyfingarinnar, Marine Le Pen, lýsti stuðningi við mótmælendur og sagði aðgerðir þeirra „endurspegla gremju verulega mikils meirihluta þjóðarinnar sem gengið væri framhjá af hálfu lítils hóps sem hugsaði bara um sjálfan sig“.

Úr tengslum við þjóðina

Macron hefur þótt úr tengslum við þjóð sína sem upp til hópa lifi hóflætislífi á landsbyggðinni, utan stórborganna. Þar sé raunveruleikinn annar en í París. Hann hefur sætt gagnrýni fyrir að láta alþjóðamál til sín taka í stað þess að fást við endurreisn heima fyrir. Erlendis hefur hann sætt gagnrýni fyrir að vilja segja öðrum fyrir verkum og hafa í hótunum, til dæmis í málefnum ESB og Brexit. Ræða hans úr Élysée-höll í fyrradag þótti frekar eiga við tæknikrata en þjóðhöfðingja. Á erlendum vettvangi hefur honum ekki orðið verulega ágengt. Nýlegar tillögur hans um stofnun Evrópuhers hafa aðeins Angela Merkel kanslari Þýskalands og Vladímír Pútín Rússlandsforseti tekið undir, en aðrir hafnað. Í rökstuðningi fyrir stofnun sveitanna sagði Macron rússnesku ógnina kalla á herinn.

AFP

Macron var starfsmaður fjárfestingarbanka áður en hann datt inn í stjórnmálin sem ráðgjafi Hollande forseta. Hann sneri baki við honum og var kosinn forseti í maí 2017 út á loforð um að bæta kjör launþega. Þeir fengju meira í vasann, boðaði hann. Hann hét því einnig að endurreisa traust almennings á stjórnmálin. Mótmælin þykja hins vegar endurspegla víðtæka gremju kjósenda í garð stefnu hans sem sögð hefur verið í þágu fyrirtækja og stjórnmálaelítunnar. Forsetinn þótti lofa góðu í upphafi setu sinnar á valdastóli. Það hefur hins vegar breyst tiltölulega hratt. Er hann nú lemstraður vegna almennrar óánægju kjósenda með umbætur sem enn hafa ekki bætt hag þeirra. Umbætur hans í þágu fyrirtækja og viðskiptalífsins og áherslan á atvinnustigið og kaupmátt tekna hafa enn sem komið er skilað takmörkuðum árangri. Í því liggur óánægjan sem dró fólk á götur út.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert