Neyðarfundur í París

AFP

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur boðað ráðherra í ríkisstjórninni á sinn fund síðar í dag og er um neyðarfund að ræða vegna mótmæla gegn ríkisstjórninni í París í gær. 133 slösuðust í mótmælunum en gríðarlegar skemmdir voru unnar á mannvirkjum og lausamunum víða um borgina.

AFP

Macron er á leiðinni heim til Frakklands eftir að hafa setið fund leiðtoga G20 ríkjanna í Argentínu. Hann hefur boðað forsætisráðherra og innanríkisráðherra á sinn fund í forsetahöllinni ásamt yfirmönnum öryggismála ríkisins. 

Ökumaður lést í nótt eftir að hafa lent í árekstri í kjölfar umferðarteppu vegna mótmæla gulu vestanna í Suður-Frakklandi. Slysið átti sér stað í Arles en sendibifreið lenti í árekstri við flutningabíl og kastaðist síðan á aðra bifreið. Saksóknari í Tarascon, Patrick Desjardins, segir slysið megi rekja beint til vegatálma sem mótmælendur settu upp. Myndaðist 10 km löng bílalest vegna þessa. 

Alls voru 412 handteknir í gær en átökin eru þau verstu í höfuðborg Frakklands í mörg ár. 378 eru enn í haldi lögreglu. Af þeim sem slösuðust eru 23 félagar í sérsveit lögreglunnar sem tókust á við mótmælendur stærsta hluta dagsins. Ekki er útilokað að neyðarástandi verði lýst yfir.

AFP

„Ég mun aldrei samþykkja ofbeldi,“ sagði Macron á blaðamannafundi í  Buenos Aires skömmu fyrir flugtak í morgun. Hann segir ekkert réttlæta árásir á opinbera starfsmenn og fyrirtæki lögð í rúst. Að blaðamönnum og almenningi sé hótað eða Sigurboginn saurgaður, sagði hann. 

Í morgun var kveikt í klefa þar sem vegtollar eru greiddir af brennuvörgum skammt frá Narbonne. Jafnframt er hraðbrautinni, A6, sem liggur norður og suður, lokað skammt frá Lyon af mótmælendum. 

AFP

En rólegt var yfir höfuðborginni í morgun á meðan starfsmenn borgarinnar unnu að hreinsunarstarfi eftir eyðilegginguna í gær, svo sem við Champs Élysées, Louvre, Óperuna og Vendôme torg. Rúður voru brotnar í verslunum, kveikt í bílum og nánast allt lagt í rúst sem hægt var að eyðileggja. Tugir bíla voru eyðilagðir af hópum óeirðarseggja en margir þeirra voru með gasgrímur og skíðagleraugu til þess að verjast táragasi frá lögreglu. 

AFP

Ein manneskja er í lífshættu eftir að mótmælendur rifu niður risastórt járnhlið Tuileries garðsins fyrir framan Louvre safnið. Nokkrir lentu undir hliðinu í látunum. Tæplega 190 eldar voru kveiktir og kveikt í sex húsum, samkvæmt fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu. 

Á Sigurbogann var búið að krota: Gulu vestin munu sigra. En með því er vísað til gulu vestanna og mótmæla gegn ríkisstjórninni. Upphaf þeirra má rekja til hækkun skatta á eldsneyti. 

AFP

Síðan þá hafa ofbeldishneigðir anarkistar og öfgahópar bæst í hópinn og er talið að þeir standi á bak við óeirðirnar í gær. 

Macron stendur frammi fyrir vanda því ekki er ljóst hvernig svara á kröfum gulu vestanna ekki síst fyrir þær sakir að um grasrótarsamtök er að ræða sem ekki eru með neina formlega leiðtoga en mikið magn krafna. 

AFP

Talið er að um 75 þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælum víðsvegar í Frakklandi í gær og í flestum tilvikum fóru þau friðsamlega fram. Þetta eru mun færri en tóku þátt 17. nóvember en þá voru þátttakendurnir 282 þúsund talsins. Fyrir viku síðan voru þeir 107 þúsund. 

Ágúst Ásgeirsson blaðamaður í Frakklandi fer yfir mótmælin í fréttaskýringu sem birtist nýverið í Morgunblaðinu en hana er hægt að lesa hér að neðan.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka