Stjórn sænska Miðflokksins mun funda í dag og ræða viðbrögð Stefans Löfven, formanns Sósíaldemókrata, við kröfum sem Miðflokkurinn hefur sett fram gegn því að styðja hann í embætti forsætisráðherra.
Stjórnmálasérfræðingur Sænska ríkisútvarpsins segir að Annie Lööf, formaður Miðflokksins, verði að fá grænt ljós frá sínum flokki áður en lengra er haldið.
Stjórnarkreppa hefur ríkt í Svíþjóð allt frá kosningunum í september. Löfven bað í gær forseta þingsins um lengri tíma til að kanna möguleika til stjórnarmyndunar, að því er talið er til að meta þær kröfur sem Miðflokkurinn hefur sett fram. Talið er að jafnaðarmenn séu tilbúnir að ganga nokkuð langt til að myndun ríkisstjórnar gangi upp en þó segja sérfræðingar að yfir ákveðnar línur verði ekki farið.
Greidd verða atkvæði um að setja Löfven í embætti forsætisráðherra á miðvikudag. Hann hefur því enn um tvo daga til að mynda starfshæfa ríkisstjórn, ræða við formenn flokka og afla stuðnings.
Talið er fullvíst að hann njóti stuðnings eigin flokks auk samstarfsflokksins Græningja en það nægir ekki til þess að hafa meirihluta á þingi. Stuðningur annars flokks eða annarra flokka er nauðsynlegur.