Hætt við skattahækkanir

Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe, muni í dag tilkynna um að hætt hafi verið við hækkanir á eldsneytissköttum en upphaf mótmælaöldunnar í landinu má rekja til skattahækkana. Fulltrúar gulu vestanna, gilet jaunes, hafa hins vegar ákveðið að hætta við að mæta á fund forsætisráðherra í dag samkvæmt frétt BBC.

Til stóð að hækka skatta á eldsneyti í Frakklandi 1. janúar en eins og áður sagði mun Philippe greina frá því að hætt hafi verið við það. Hann mun jafnframt kynna fleiri aðgerðir stjórnvalda í þeirri von að hægt verði að lægja öldunar í frönsku þjóðfélagi.

Einhverjir liðsmanna hreyfingarinnar segja að þeir hafi fengið líflátshótanir frá öfgamönnum meðal mótmælenda. Þeir hóti að drepa þá ef þeir gangi til viðræðna við stjórnvöld. Mótmæli gulu vestanna hófust um miðjan nóvember vegna hækkunar á sköttum á eldsneyti en að sögn yfirvalda er hækkunin liður í umhverfisstefnu landsins. En mótmælin hafa breyst að undanförnu og beinist reiði mótmælenda að ríkisstjórn landsins.

Þrír hafa dáið eftir að mótmælin hófust og ofbeldi og skemmdarverk hafa einkennt mótmælin undanfarnar tvær helgar, ekki síst um síðustu helgi.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur sakað andstæðinga sína í stjórnmálum um að hafa rænt mótmælahreyfingunni (gulu vestunum) til þess að koma í veg fyrir umbætur sem unnið er að af stjórnvöldum. 

Macron hélt neyðarfund með ráðherrum í gær og hann hætti við opinbera heimsókn til Serbíu vegna ástandsins.

Leiðtogi Þjóðar­hreyf­ing­ar­inn­ar, Marine Le Pen, var á neyðarfundinum með Macron í gær og hún varar við því að Macron geti orðið fyrsti forseti franska lýðveldisins sem myndi fyrirskipa að skotið verði á almenning.

Líkt og fram hefur komið hefur Le Pen lýst stuðningi við mót­mæl­end­ur og sagt aðgerðir þeirra „end­ur­spegla gremju veru­lega mik­ils meiri­hluta þjóðar­inn­ar sem gengið væri fram ­hjá af hálfu lít­ils hóps sem hugsaði bara um sjálf­an sig“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert