Lokafrestur til að semja er 1. mars

AFP

Aðalsamningamaður Bandaríkjanna vegna viðskiptadeilunnar við Kína segir að 1. mars sé síðustu forvöð til að komast að niðurstöðu um samning sem komið geti í veg fyrir frekara viðskiptastríð milli landanna.

„Hvað mig varðar þá lít ég á 1. mars sem lokadag. Þegar ég tala við forsetann þá talar hann ekki um að semja eftir 1. mars heldur talar hann um að ná samkomulagi ef mögulegt er á næstu 90 dögum,“ sagði Robert Lighthizer aðalviðskiptafulltrúi í samtali við fréttastöðina CBS í dag.

Þá sagði hann að handtaka Meng Wanzhou, fjármálastjóra Huawei og dóttur stofnanda raftækjaframleiðandans, í Kanada í byrjun desember muni ekki hafa áhrif á samningaviðræðurnar. „Það er opinbert mál og tengist ekki því sem ég er að gera,“ bætti hann við.

Kín­versk stjórn­völd hafa kraf­ist þess að hún verði lát­in laus og segja hand­töku henn­ar vera brot á mann­rétt­ind­um. Ekki hef­ur verið greint frá ástæðum hand­tök­unn­ar og í yf­ir­lýs­ingu frá Huawei seg­ir að fyr­ir­tæk­inu sé „ekki kunn­ugt um að Meng hafi brotið af sér“. Því hefur verið haldið fram að handtaka hennar tengist rannsókn bandarískra yfirvalda á meintum brotum Huawei á viðskiptabanni gegn Íran.

Handtakan hefur orðið til þess að fjárfestar hafa frekar haldið að sér höndum og staðan á fjármálamörkuðum ber þess merki. Hún þykir koma á gríðarlega slæmum tíma þar sem einungis sólarhringur var liðinn frá því að Donald Trump tilkynnti að hann og forseti Kína, Xi Jinping, hefðu fallist á að veita samninganefndum 90 daga til að leysa úr viðskiptadeilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert