Ofbeldi sem tengist mótmælum „gulu vestanna“ í Frakklandi eru eins og hamfarir fyrir efnahag landsins, segir franski fjármálaráðherrann Bruno Le Maire. „Þetta eru hamfarir fyrir viðskipti, þetta eru hamfarir fyrir hagkerfið,“ sagði Le Maire í samtali við blaðamenn er hann heimsótti verslanir í París sem höfðu orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum úr hópi mótmælenda.
Yfir 1.700 manns voru handteknir í mótmælunum í París í gær. Lögreglan var með gríðarlegan viðbúnað í borginni sem og víðar um landið. Mótmælin beinast að forsetanum Emmanuel Macron og stefnu hans. Um mestu mótmæli sem orðið hafa í Frakklandi síðustu áratugi er að ræða.
Lögreglan beitti táragasi og gúmmíkúlum á mannfjöldann í gær.