„Veðrið er ömurlegt og ríkisstjórnin líka“

Mikið hreinsunarstarf beið starfsmanna Parísarborgar í morgun eftir að mótmælendur lentu í átökum við óeirðalögregluna í gærkvöldi og nótt. Mótmælin beinast gegn Macron forseta og auknum álögum sem fólk telur sig nú þurfa að bera. Um þúsund manns sem tóku þátt í mótmælunum voru handteknir í gær. Lögreglan beitti bæði táragasi og gúmmíkúlum á mannfjöldann.

Þúsundir lögreglumanna fylltu götur borgarinnar í gær og varð viðvera þeirra til þess að ekki brutust út jafn hörð átök og síðustu helgi.

Mótmælendur voru þó sumir hverjir ekki til friðs. Þeir kveiktu í bílum og vegahindrunum, brutu glugga og lentu í áflogum hér og þar um miðborgina. Flestir eru þeir klæddir gulu öryggisvestunum sem mótmælin eru nú kennd við. 

„Macron, segðu af þér!“ hrópaði mannfjöldinn í miðborginni í gær. Er þess nú vænst að Macron tjái sig um málið á næstu dögum en eftir því er nú beðið með eftirvæntingu.

Mótmælin voru langt í frá bundin við París. Þau fóru einnig fram í Marseille, Bordeaux, Lyon og Toulouse. Er þetta fjórða helgin í röð sem mótmæli á landsvísu fara fram. Eru mótmælendur ósáttir við auknar álögur sem settar hafa verið á almenning en margir eru einnig að mótmæla veru Macrons á forsetastóli. 

Í París hafa mótmælin verið hvað hörðust og þeim hafa fylgt skemmdarverk og ofbeldi. „Tugir verslunareigenda hafa orðið fórnarlömb skemmdarvarga,“ segir Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar. „Enn og aftur, þetta er hræðilegt.“

Þykkur reykjarmökkur steig til himins í gær þar sem mótmælendur kveiktu í alls konar hlutum. Þá beitti lögreglan táragasi á mannfjöldann. Brotist var inn í verslanir og á veitingastaði. 

„Veðrið er ömurlegt og það er ríkisstjórnin líka,“ söngluðu mótmælendur er rigning hófst. Rigningin ágerðist eftir því sem leið á gærkvöldið sem varð til þess að sundra hópum mótmælenda. 

Ofbeldis- og skemmdarverk voru fátíðari í gær en síðustu helgi en þá var kveikt í um 200 bílum og talað hefur verið um mestu óeirðir í borginni í nokkra áratugi.

Ríkisstjórnin segist ekki hafa neitt umburðarlyndi fyrir skemmdarvörgum og ofbeldismönnum. 

Forsætisráðherra Frakklands hét því í gær að Macron forseti myndi hlusta á mótmælendur og bregðast við umkvörtunum þeirra. „Samtalið er hafið,“ sagði ráðherrann, Edouard Philippe.

Macron forseti hefur þegar látið undan einhverjum af kröfum mótmælenda, þ.e. þeim sem beinast að því að bæta lífskjör fátækustu hópa landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert