Miðflokkurinn styður ekki Löfven

Annie Lööf, formaður Miðflokksins.
Annie Lööf, formaður Miðflokksins. AFP

Slitnað hefur upp úr stjórnarmyndunarviðræðum sænskra Sósíaldemókrata og Miðflokksins. Þetta tilkynnti Annie Lööf, formaður Miðflokksins, á blaðamannafundi í sænska þinghúsinu nú í morgun. Forystumenn flokkanna hafa undanfarnar tvær vikur fundað um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf undir forystu Stefans Löfven, formanns Sósíaldemókrata og núverandi forsætisráðherra.

Á fundinum sagði Lööf að hún væri alltaf til í málamiðlanir, en kröfugerð Vinstriflokksins hefði verið flokknum erfiður biti að kyngja. Vinstriflokkurinn hefur aldrei átt sæti í ríkisstjórn en jafnan stutt stjórnir Sósíaldemókrata, og ljóst að sú stjórn sem nú var í burðarliðnum hefði þurft að reiða sig á stuðning flokksins.

Á morgun fundar flokksráð Frjálslynda flokksins, sem einnig hefur átt í viðræðum við Sósíaldemókrata, og mun framtíð viðræðnanna ráðast þar, og eins hvort Frjálslyndi flokkurinn mun styðja fjárlagafrumvarp starfsstjórnar Sósíaldemókrata, sem etur kappi við fjárlagafrumvarp Moderaterna og Kristilegra demókrata en það frumvarp nýtur stuðnings Svíþjóðardemókrata.

Stefan Löfven leiðir starfstjórn Sósíaldemókrata og Græningja. Óvíst er hvort …
Stefan Löfven leiðir starfstjórn Sósíaldemókrata og Græningja. Óvíst er hvort stjórnin muni ná fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þingið. AFP


92 dagar eru liðnir frá kosningum í Svíþjóð. Spurð út í framhaldið segir Lööf að Sósíaldemókratar gætu leyst stjórnarkreppuna með því að styðja minnihlutastjórn flokka hægribandalagsins.

Hægribandalagið samanstendur af Miðflokknum, Frjálslyndum, Kristilegum demókrötum og Moderaterna. For­menn flokk­anna fjög­urra héldu sam­eig­in­lega kosn­inga­fundi í aðdrag­anda kosn­ing­anna og tefldu Ulf Kristersson, formanni Moderaterna, fram sem forsætisráðherraefni sínu. Bandalagið stendur þó á brauðfótum eftir að Miðflokkurinn og Frjálslyndir kusu gegn Kristersson sem forsætisráðherra í síðasta mánuði af ótta við að mynduð yrði ríkisstjórn sem væri upp á þjóðernisflokkinn Svíþjóðardemókrata komin.

Hinn möguleikinn sem Lööf stingur upp á er að Græningjar gangi til liðs við hægribandalagið. Græningjar sitja nú í ríkisstjórn ásamt Sósíaldemókrötum, en hafa starfað með hægribandalaginu á sveitarstjórnarstigi og gera til að mynda í Stokkhólmi. Aðkoma Græningja myndi þó ekki nægja til að tryggja flokkunum meirihluta og væri ríkisstjórnarsamstarf þessara flokka því enn háð stuðningi Sósíaldemókrata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert