„Rógburður“ að Rússar kyndi undir mótmælum

Mótmæli „gulu vestanna“ í nágrenni Le Mans í Frakklandi. Rússnesk …
Mótmæli „gulu vestanna“ í nágrenni Le Mans í Frakklandi. Rússnesk stjórnvöld neita því að þau eigi nokkurn þátt í því að kynda undir mótmælaöldunni. AFP

Rússnesk stjórnvöld neituðu í dag að eiga nokkurn þátt í að kynda undir mótmælaöldu „gulu vestanna“ svonefndu, en mikil spenna hefur verið í Frakklandi undanfarið vegna mótmælanna. Greindi breska dagblaðið Times frá því á laugardag að rússneskir samfélagsmiðlareikningar hafi verið notaðir til að standa að herferð sem hvetja eigi til aukins óróa í Frakklandi.

Sagði Times hundruð samfélagsmiðlareikninga með tengsl við Rússland hafa leitast við að „magna upp“ mótmælin. Leituðust þeir m.a. við að birta myndir sem sýndu mótmælendur sem áttu að hafa slasast í mótmælunum, en raunin var hins vegar sú að myndirnar höfðu verið teknar á öðrum mótmælum samkvæmt rannsókn netöryggisfyrirtækis.

AFP-fréttastofan segir frönsk yfirvöld hafa hafið rannsókn á fullyrðingunum, yfirvöld segja hins vegar of snemmt að tjá sig um þessar ásakanir.

Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar, sagði á fundi með fréttamönnum í dag að Rússar litu svo á að „allt það sem gerist sé alfarið innanríkismál Frakklands“.

„Við höfum ekki skipt okkur af, né heldur áætlum við að skipta okkur af innanríkismálum neins lands, þar með talið Frakklands,“ sagði Peskov.

Fréttir annars efnis væru „ekkert nema rógburður“.  

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur áður ásakað illræmt rússneskt nettröllabú um afskipti af þingkosningunum sem fram fóru í landinu í nóvember sl., sem og af forsetakosningunum 2016 þegar Donald Trump var kjörinn forseti.

Macron reynir að stilla til friðar

Emm­anu­el Macron Frakk­lands­for­seti átti að funda í morgun með verka­lýðsfor­ingj­um, sam­tök­um launþega og emb­ætt­is­mönn­um til að leita lausna á mótmælaöldunni. Þá mun Macron í kvöld ávarpa frönsku þjóðina til að reyna að stilla til friðar í land­inu. Mót­mæl­in bein­ast gegn Macron for­seta og aukn­um álög­um sem fólk tel­ur sig nú sæta.

Mikið hreins­un­ar­starf beið starfs­manna Par­ís­ar­borg­ar í gærmorg­un eft­ir að mót­mæl­end­ur lentu í átök­um við óeirðalög­regl­una á laugardagskvöld. Um þúsund manns sem tóku þátt í mót­mæl­un­um voru hand­tekn­ir, en lög­regl­a beitti bæði tára­gasi og gúmmí­kúl­um á mann­fjöld­ann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert