Mótmælendur, eða „gulu vestin“ svonefndu gáfu lítið fyrir loforð Emmanuel Macrons Frakklandsforseta í sjónvarpsávarpi forsetans í gærkvöldi. „Vitleysa“, „látalæti“, „blekkingar“ og „dropi í hafið“ voru meðal þeirra viðbragða sem AFP-fréttaveitan fékk hjá mótmælendum eftir ræðu Macrons. Aðrir töldu viðleitni forsetans hins vegar lofsverða.
Macron lofaði í sjónvarpsávarpi sínu til frönsku þjóðarinnar í gærkvöldi bæði hækkun lágmarkslauna og skattaívilnunum í tilraun til þess að lægja mótmælaölduna.
Mótmælendur, sem klæðast gjarnan gulum vestum, hafa valdið miklum usla í París og víðar í Frakklandi. Þeir mótmæla meðal annars hækkun á eldsneytissköttum, en hundruð hafa verið handtekin í tengslum við mótmælin.
Við hringtorg í bænum Le Boulou í Suður-Frakklandi hlýddu mótmælendur á orð forsetans sem varpað var yfir mannfjöldann í gegnum hátalara áður en mótmælin hófust að nýju. „Við sjáum að hann er ekki einlægur. Þetta eru allt blekkingar,“ sagði bifvélavirkinn Jean-Marc, sem var einn mótmælendanna.
„Þetta er bara sýning fyrir fjölmiðla. Smávægilegar aðgerðir. Þetta er næstum ögrun,“ sagði Thierry, hjólaviðgerðamaður sem klæddist fyrst gula vestinu fyrir hálfum mánuði. „Allt þetta leikhús tekur ekki á alvarlegustu vandamálunum,“ bætti hann við og tók því næst til við að loka á umferð á landamærum Frakklands og Spánar.
Innan við klukkutíma eftir ræðu Macrons var búið að loka fullkomlega á umferð milli landanna um A9-hraðbrautina.
„Ef Macron hefði flutt þessa ræðu fyrir þremur vikum, þá hefði það kannski róað fólk. En nú er það of seint,“ sagði Gaetan, sem mótmælti í Rennes. „Hvað okkur varðar er þessi ræða bull.“
Macron lofaði því að lágmarkslaun yrðu hækkuð um 100 evrur frá og með 2019 og að fallið verði frá áætlunum um aukna skattlagningu á lægstu tekjuhópa í landinu. Þá verða atvinnuveitendur hvattir til þess að greiða starfsfólki sínu skattfrjálsa bónusa í lok ársins.
Forsetinn sagði frönsku þjóðina ósátta við lífsskilyrði í Frakklandi og að hann ætti líklega sína sök á því, enda hafi fólki fundist eins og ekki hafi verið á það hlustað.
Ekki voru allir á því að ræða Macrons væri bull og sögðu sumir mótmælendur að forsetinn sýndi ákveðin skilning á vanda þeirra. „100 evra hækkunin er ekki alslæm,“ sagði Erwan, talsmaður mótmælenda í Rennes.
Viðbót fyrir þá ellilífeyrisþega sem fá innan við 2.000 evrur í lífeyri væri líka af hinu góða, sem og tillagan um skattfrjálsa bónusa í árslok.
„Það eru nokkrar góðar hugmyndir þarna,“ sagði Claude Rambour sem mótmælir í Calais. „Þarna er viðurkenning á ábyrgð sem kemur of seint, en við munum ekki hrækja á hana.“ Macron hefði samt átt að ganga lengra, bætti hann við og kvaðst óttast að tillaga forsetans muni mynda klofning meðal mótmælenda.