Hvetja mótmælendur til að halda að sér höndum

Franska ríkisstjórnin hvetur mótmælendur (svonefnda gulvestunga) til þess að stilla sig í mótmælum um helgina vegna mikils álags á lögreglu og her vegna hryðjuverkaárásar á jólamarkaði í Strassborg í vikunni.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar, Benjamin Griveaux, segir að enn sem komið er verði ekki lagt bann við mótmælum um helgina en biður mótmælendur um að taka tillit til aðstæðna.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, kynnti margvíslegar aðgerðir á mánudag til þess að bæta kjör Frakka. Þar á meðal hækkun lægstu launa og skattalækkanir á þá sem eru á eftirlaunum og bótum úr almannatryggingakerfinu. 

Griveaux segir álagið hafa verið gríðarlegt á sérsveitir lögreglu undanfarið en það sé að sjálfsögðu ekki í höndum ríkisstjórnarinnar að hætta við mótmælafundi eður ei.

Í kjölfar árásarinnar í Strassborg væri betra ef hægt væri að tryggja kaupmönnum að geta stundað viðskipti sín án þess að það sé í skugga mótmæla. 

Mótmæli fólks í gulum vestum hófust 17. nóvember og í fyrstu snerust þau um fyrirhugaðar skattahækkanir á eldsneyti. Í kjölfarið fylgdu óeirðir í helstu borgum Frakklands sem voru verstar í höfuðborginni, París, þar sem kveikt var í bílum og miklar skemmdir unnar á húsnæði fyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka