Franska ríkisstjórnin leggur allt kapp á að koma skattalækkunarfrumvarpi sem og hækkun lágmarkslauna í gegnum þingið sem fyrst. Með þessu vonast ríkisstjórnin til þess að mótmælum gulu vestanna ljúki.
Aðgerðirnar sem forseti Frakklands, Emmanuel Macron, kynnti fyrir viku þ verða teknar fyrir á ríkisstjórnarfundi á miðvikudag og frumvörpin lögð fyrir þingið fyrir jól, bæði efri og neðri deild.
Innanríkisráðherra Frakklands, Christophe Castaner, segir að á sama tíma verði mótmælendur að gera sitt og fjarlægja vegatálma sem þeir hafa komið fyrir á þjóðvegum landsins. Ekki sé hægt að lama franskt efnahagslíf lengur.
Forsætisráðherra, Edouard Philippe, hefur greint frá því að aðgerðirnar muni kosta um 10 milljarða evra og það þýði að Frakkar muni ekki standast kröfur ESB um að halli á fjárlögum nemi ekki meira en 3% af landsframleiðslu.
Hann viðurkennir mistök ríkisstjórnarinnar. Hún hafi ekki hlustað nægjanlega vel á frönsku þjóðina og vísar þar til mótmælaaðgerða sem hafa staðið yfir í um það bil mánuð.
Fyrirtækið sem rekur hraðbrautir í Frakklandi, Vinci, segir að skemmdirnar sem unnar hafi verið á þjóðvegum landsins muni kosta tugmilljónir evra. Meðal annars hafa 15 tollahlið verið eyðilögð og 33 ökutæki. Enn eru unnin skemmdarverk en í nótt var kveikt í tveimur tollahliðum í Suður-Frakklandi.
Eins hefur jólaverslun dregist mjög saman á milli ára samkvæmt upplýsingum frá Verslunarráði. Nemur samdrátturinn tveimur milljörðum evra á milli ára og er talið vonlaust að það náist að vinna það upp fyrir jól.