Fjórir karlmenn sem grunaðir eru um aðild að morðunum á skandinavísku vinkonunum Louisu Vesterager Jespersen og Maren Ueland lýstu yfir stuðningi við Ríki íslams áður en morðin voru framin, samkvæmt saksóknara í Marokkó.
Áður hafði verið greint frá því að málið væri rannsakað sem mögulegt hryðjuverk.
Konurnar voru saman á bakpokaferðalagi í Marokkó og ætluðu að vera þar um jólin. Ueland, sem er norsk og 28 ára gömul, og Jespersen, sem er dönsk og 24 ára gömul, voru saman í námi við Sørøst-Norge-háskólann í Bø í Þelamörk.
Saksóknari í Marokkó staðfesti í dag að mennirnir fjórir, sem allir hafa verið handteknir, hafi lýst yfir stuðningi við Ríki íslams og að það sé sjáanlegt í myndskeiði.
Einnig kom fram í máli saksóknara að í myndskeiðinu hóti hinir grunuðu því að halda ofbeldisverkum áfram. Samkvæmt frétt Reuters var myndskeiðið tekið upp viku áður en konurnar voru myrtar og á öðrum stað.
„Myndskeiðið og niðurstaða fyrstu rannsóknar marokkóskra yfirvalda benda til þess að morðin séu tengd hryðjuverkahópnum Ríki íslams. Þetta er dýrslegt morð á tveimur saklausum ungum konum,“ kom fram í yfirlýsingu frá dönsku leyniþjónustunni.