„Þarna er á ferð grimmileg og tilgangslaus atlaga að saklausu fólki sem við mætum með óbeit og fordæmingu,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, þegar hún tjáði sig opinberlega um Marokkóvígin á blaðamannafundi í gær, dauða tveggja skandinavískra kvenna sem mættu örlögum sínum á hrottafenginn hátt í Atlas-fjöllunum í Marokkó í byrjun vikunnar.
„Noregur mun leggja fram aðstoð sína með mannskap frá [rannsóknarlögreglunni] Kripos auk þess sem við erum í samstarfi við dönsk yfirvöld. Er það einlæg von okkar að samstarfið beri ávöxt og hinir seku verði látnir sæta ábyrgð á fólskuverkum sínum,“ sagði Solberg enn fremur og fór ekki í grafgötur með álit sitt á verknaðinum og þeim sem hann frömdu.
Blaðamenn spurðu forsætisráðherrann á fundinum hvers vegna norsk yfirvöld væru ekki reiðubúin til að lýsa því yfir að víg kvennanna tveggja, Louisu Vesterager Jespersen og Maren Ueland frá Danmörku og Noregi, væru hryðjuverk eftir að marokkósk og dönsk yfirvöld gáfu út slíkar yfirlýsingar.
„Þetta er lögregluvinna og hryðjuverk er ein þeirra kenninga sem lögreglan hefur að leiðarljósi. Í þeim efnum hefur hins vegar ekkert fengist staðfest og á meðan svo er lýsa norsk yfirvöld því ekki yfir að um hryðjuverk sé að ræða,“ svaraði Solberg.
„Við treystum því að marokkósk yfirvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að draga hina seku til ábyrgðar. Noregur lætur í té alla mögulega aðstoð við þá vinnu,“ sagði hún enn fremur.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í gær að málið væri rannsakað sem möguleg hryðjuverkaárás eftir að danska öryggislögreglan PET gaf það út í fréttatilkynningu. „Tvær saklausar manneskjur eru myrtar af skepnuskap. Hugur minn er hjá fjölskyldum þeirra. Það sem þær ganga nú í gegnum er vart hægt að ímynda sér,“ sagði Rasmussen.