Myndbandið líklega ósvikið

Mennirnir þrír sem grunaðir eru um morðin.
Mennirnir þrír sem grunaðir eru um morðin. AFP

Norska lögreglan er nánast sannfærð um að myndband, sem virðist sýna morðið á annarri af skandínavísku vinkonunum sem fundust látnar í Marokkó í vikunni, sé ósvikið. BBC greinir frá.

Lík þeirra Maren Ueland og Louisa Vesterager Jespersen fundust á vinsælu útivistarsvæði í Atlas-fjöllum í Marokkó á mánudag. Fjöldi áverka eftir eggvopn fannst á líkunum og fjórir eru í haldi vegna morðanna.

Mennirnir í myndbandinu segja að morðin hafi verið framin til þess að hefna atburða í Sýrlandi og segir lögregla þá hafa birst í mismunandi áróðursmyndskeiðum sem tekin voru áður en morðin voru framin.

Ueland og Jespersen voru háskólanemar á þrítugsaldri og höfðu gert allar ráðstafanir fyrir mánaðarlanga gönguferð í Marokkó að sögn móður annarrar þeirra. Búist er við því að þúsundir Marokkóa votti konunum virðingu sína fyrir utan danska og norska sendiráðið í  Rabat á morgun, laugardag.

Myndbandið sem um ræðir virðist sýna þegar önnur kvennanna er afhöfðuð, og segir norska lögreglan að þó að það þarfnist nánari rannsóknar virðist það raunverulegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka