Umhverfisverndarsinnar mögulega að verki

Flugvél kemur inn til lendingar á Gatwick-flugvelli í morgun.
Flugvél kemur inn til lendingar á Gatwick-flugvelli í morgun. AFP

Ekki hefur sést til flygildis á sveimi yfir eða í nágrenni Gatwick-flugvallar síðan klukkan 22 í gærkvöldi og búist er við því að starfsemi flugvallarins verði komin í samt lag síðdegis á morgun. Ekkert bendir til þess að um tilraun til hryðjuverka hafi verið að ræða, að sögn Chris Grayling, samgöngumálaráðherra Bretlands.

Steve Barry, aðstoðarlögreglustjóri í Sussex, segir að lögregla hafi ýmsa möguleika til rannsóknar, meðal annars það hvort flygildunum hafi verið stýrt af róttækum umhverfisverndarsinnum. Alls bárust á bilinu 40-50 tilkynningar um flygildi yfir eða í grennd við einu flugbraut vallarins, en hvorki drónarnir né sá eða þeir sem þeim stýrðu hafa fundist.

Samkvæmt frétt BBC um þetta fordæmalausa ástand hefur eftirlitsbúnaði verið komið upp við flugvöllinn með aðkomu yfirvalda og breska hersins. Verði vart við fleiri flygildi verður flugvellinum umsvifalaust lokað á ný.

Þriggja tíma seinkanir á Icelandair-vélum

Nokkrar seinkanir eru enn á flugi til og frá vellinum, en fjórar flugvélar hafa farið frá Keflavíkurflugvelli til Gatwick það sem af er degi. Flugi WOW air í morgun seinkaði um tæpan klukkutíma og flugvélar Icelandair, sem áttu að leggja af stað til Gatwick kl. 7:30 og 7:45, lyftu sér ekki af flugbrautinni á Miðnesheiði fyrr en kl. 10:51 og 10:39, þremur klukkustundum á eftir áætlun.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair hefur félagið meðal annars brugðið til þess ráðs að flytja fólk yfir í flugvélar sem fljúga til Heathrow og sömuleiðis reynt að koma þeim farþegum sem voru á leið yfir Atlantshafið með viðkomu á Íslandi í flug með öðrum flugfélögum beint yfir hafið.

Búist er við því að starfsemi flugvallarins verði komin í …
Búist er við því að starfsemi flugvallarins verði komin í samt lag annað kvöld. AFP

Einnig var yfir klukkutíma seinkun á flugi EasyJet, sem lagði af stað áleiðis til Gatwick kl. 13:36, samkvæmt yfirliti Isavia yfir brottfarir frá Keflavíkurflugvelli. EasyJet stefnir á aðra brottför frá Keflavík kl. 19:30 í kvöld, samkvæmt flugáætlun.

Ekki ljóst hvort farþegar eiga rétt á bótum

Þúsundir farþega hafa verið strandaglópar á flugvellinum og sváfu þar í nótt á bekkjum og gólfum flugstöðvarbyggingarinnar. Áhöld eru uppi um hvort þeir farþegar sem lentu í vanda vegna þessa ástands eigi rétt á að sækja bætur til flugfélaga sinna. Forstjóri Gatwick-flugvallar, Chris Woodrofe, neitaði að tjá sig um það við BBC.

Flugfarþegar hírðust á Gatwick í nótt og óljóst er hvort …
Flugfarþegar hírðust á Gatwick í nótt og óljóst er hvort þeir geti sótt einhverjar bætur vegna þessarar röskunar á ferðaáætlunum sínum. AFP

Flugmálayfirvöld í Bretlandi segja að þar sem um afar óvenjulegar aðstæður sé að ræða þurfi flugfélög ekki að greiða farþegum sínum tafabætur fyrir seinkanirnar. Alex Neill frá bresku neytendasamtökunum Which? segir þó að fólk eigi þó mögulega rétt á að fá greidd útgjöld frá flugfélögum sínum vegna máltíða, snarls, hótelgistinga og samgangna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert