Von á Harry Bretaprins til Bretlands

Harry Bretaprins ásamt Meghan hertogaynju.
Harry Bretaprins ásamt Meghan hertogaynju. AFP/Danny Lawson/Pool

Harry Bretaprins mun snúa aftur til Bretlands eftir rúma viku fyrir athöfn í tilefni tíu ára afmælis Invictus-leikanna.

Harry Bretaprins, sem stofnaði Invictus-leikana árið 2014 fyrir fyrrverandi hermenn sem hafa særst í átökum, mun einnig vera viðstaddur þakkargjörðarguðsþjónustuna í St Paul's Cathedral í Lundúnum þann 8. maí næstkomandi.

Prinsinn mun halda upplestur meðan á guðsþjónustunni stendur en leikarinn Damian Lewis fer með ljóð. Harry Bretaprins sást síðast í Bretlandi í febrúar í stuttri heimsókn til að hitta Karl konung föður sinn eftir krabbameinsgreiningu hans.

Talsmaður prinsins vildi ekki greina frá því hvort Meghan, eiginkona hans, verði með í för en þau fluttu til Bandaríkjanna árið 2020 eftir að hafa látið af störfum hjá bresku konungsfjölskyldunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert