Kafbátur danska uppfinningamannsins Peter Madsen, UC3 Nautilus, hefur verið fargað. Báturinn var tekinn í sundur fyrir skömmu og brotunum fargað. Frá þessu greinir Brian Belling hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn í samtali við Danska ríkisútvarpið.
„Það er rétt, hann er á bak og burt. Hann var tekinn í sundur og fargað á staðnum þar sem hann hefur verið geymdur,“ segir Belling.
Madsen var fyrr á árinu dæmdur í lífstíðarfangelsi í fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall. Kim Wall var þrítug, sænsk blaðakona sem hafði hug á að skrifa um geimferðarhugmyndir Madsens. Í því skyni sigldi hún með honum til hafs á kafbátnum síðdegis þann 10. ágúst á síðasta ári.
Morguninn eftir sökk kafbáturinn og Madsen var bjargað af sjófarendum í flóanum. Hann minntist ekki einu orði á Wall. Hann kom í land og ræddi þá stuttlega við fjölmiðlamenn. Enn benti ekkert í máli hans til annars en að hann hefði verið einn á ferð í bátnum. Hann var hins vegar fljótlega handtekinn þar sem þegar hafði verið lýst eftir Wall.
Madsen sagði bátinn hafa bilað og sokkið en rannsókn lögreglu sýndi að það hefði verið viljaverk. Ellefu dögum eftir að Wall hvarf fóru líkamsleifar hennar að finnast og fljótlega varð ljóst að lík hennar hafði verið brytjað í sundur.