168 látnir eftir flóðbylgju

Eyðileggingin er mikil í borginni Carita á Jövu eftir flóðbylgjuna.
Eyðileggingin er mikil í borginni Carita á Jövu eftir flóðbylgjuna. AFP

168 hið minnsta eru látnir og 745 slasaðir eftir að flóðbylgja skall á ströndum eyjanna Sumötru og Jövu í Indónesíu í gær. Hundruð bygginga eru eyðilagðar og mikil ringulreið greip um sig á svæðinu. Þá er 30 enn saknað, en stjórnvöld telja að tala látinna muni hækkað þar sem ekki hefur náðst samband við öll svæðin þar sem talið er að flóðbylgjan hafi skollið á.

Talið er að flóðbylgjan hafi myndast í kjölfar eldgoss í Anak Krakatau sem liggur mitt á milli Sumötru og Jövu, en eldfjallið Krakatoa sem er á annarri nærliggjandi eyju er öllu þekktara fyrir eitt stærsta eldgoss sögulegra tíma árið 1883.

Eldgos í Anak Krakatoa er talið hafa valdið neðansjávarskriðu sem …
Eldgos í Anak Krakatoa er talið hafa valdið neðansjávarskriðu sem ýtti flóðbylgjunni af stað. AFP

Það svæði sem varð verst úti í flóðbylgjunni er Pandeglang í Banten héraði á Jövu. Liggur það nálægt Ujung Kulon þjóðgarðinum og vinsælum ströndum nokkru suðvestur af höfuðborg Indónesíu, Jakarta.

Samkvæmt óstaðfestum upplýsingum frá fréttamanni Australian Brodcasting Corporation á svæðinu er tala látinna í Lampung héraðinu á Súmötru þegar kominn upp í 113. Þá er samkvæmt sömu heimildum tala látinna komin upp í 92 í Pandeglang. 

Myndir sem hefur verið dreift eftir hamfarirnar sýna slóð eyðileggingar, meðal annars tré sem hafa rifnað upp með rótum auk timburs og bárujárns á víð og dreif um fjörur svæðisins.

Yfirvöld telja að eldgos í Anak Krakatau hafi valdið neðanjarðarskriðu sem hafi auk fulls tungls verið ástæða flóðbylgjunnar. Sagði talsmaður almannavarna Indónesíu, Sutopo Purwo Nugroho, við fréttamenn að búast mætti við því að fjöldi látinna myndi hækka.

Eyjan og eldfjallið Anak Krakatau hefur stundum verið kölluð „barn“ Krakatoa eldfjallsins, en eyjan myndaðist fyrst árið 1927 í eldgosi. Síðan þá hefur reglulega gosið í eyjunni og nú síðast í gær og í gosi sem hófst 15. október á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert