Fjölmargir leita fórnarlamba bylgjunnar

Leitar- og björgunarhópar vinna nú á flóðasvæðunum og unnið er …
Leitar- og björgunarhópar vinna nú á flóðasvæðunum og unnið er að því að koma birgðum þangað. AFP

Fjölmennir hópar leitar- og björgunarsveit leita nú fórnarlamba gríðarmikillar tsunami-flóðbylgju sem skall á ströndum eyjanna Súmötru og Jövu í Indónesíu um klukkan hálf tíu í gærkvöldi að staðartíma. Unnið er að því að flytja á hamfarasvæðin mikinn búnað og birgðir. Þá er unnið að því að koma hreinu vatni á svæðið og unnið með það í huga að smitsjúkdómar kunni að brjótast út á flóðasvæðunum.

Staðfest er að 222 eru látnir, 843 eru slasaðir og 28 er enn saknað. Líklegt er að fjöldi látinna hækki. Kathy Mueller, starfsmaður Rauða krossins, sagði að líklega yrði ekki hægt að fullyrða um endanlega fjölda látinna á næstu dögum og jafnvel vikum.

Myndir og myndbönd frá vettvangi sýna mikla eyðileggingu við strandir á eyjunum tveimur. Tré hafa rifnað upp með rótum og brak liggur meðfram ströndunum öllum. 

Bylgjan tók með sér tré og bíla

Asep Perangkat er ein þeirra fjölmörgu sem flúðu undan flóðbylgjunni á ströndinni Carita í gærkvöldi, en hann var með fjölskyldu sinni þegar bylgjan braust gegnum bæinn og eyðilagði allt sem fyrir varð.

„Bílar og gámar drógust til um tíu metra,“ sagði hann. „Byggingar við strandlengjuna gjöreyðilögðust og tré og rafmagnsmöstur féllu. Allir þeir sem hlupu undan flóðbylgjunni og inn í skóg eru heilir heilsu,“ sagði hann.

Mikil eyðilegging er við strandirnar þar sem bygjan lenti, m.a. …
Mikil eyðilegging er við strandirnar þar sem bygjan lenti, m.a. við bæinn Carita. AFP

Oystein Andersen, ljósmyndari, lýsti atburðarrásinni á Facebook, en hann tók myndir af Anak Krakatá þegar flóðbylgjan reið yfir. „Skyndilega sá ég stóra öldu. Ég þurfti að hlaupa, þar sem flóðbylgjan náði fimmtán til tuttugu metra upp á land. Næsta flóðbylgja náði alveg að garði hótelsins þar sem ég dvaldi og tók með sér bíla og annað á leiðinni,“ segir hann.

Héldu að ekki væri um flóðbylgju að ræða

Líkt og áður hefur komið fram er talið að flóðbylgjan hafi myndast í kjölfar eldgoss í Anak Krakatá (e. Anak Krakatau) sem liggur milli eyjanna tveggja. Talið er að samspil óvenjulegs háflóðs vegna nýs tungls og neðansjávaraurskriðu hafi valdið flóðbylgjunni.

Indónesísk yfirvöld fullyrtu í upphafi að ekki þyrfti að óttast tsunami-flóðbylgju, heldur væri aðeins um óvenjuleg sjávarföll að ræða. Síðar hafa yfirvöld beðist afsökunar á þessu og sagt að í ljósi þess að ekki hafi orðið eiginlegur jarðskjálfti hafi verið erfitt að fullyrða um hvort um slíka flóðbylgju væri að ræða.

222 létust af völdum flóðbylgjunnar, en endanlegur fjöldi látinna liggur …
222 létust af völdum flóðbylgjunnar, en endanlegur fjöldi látinna liggur ekki fyrir. AFP

Anak Krakatá er lítil eldfjallaeyja sem kom upp úr haffletinum um hálfri öld eftir að stærra eldfjall, Krakatá (e. Krakatoa) gaus árið 1883 með þeim afleiðingum að 36 þúsund manns létust. Anak Krakatá hafði fram til laugardags sýnt merki aukinnar virkni í marga daga og spúð ösku þúsundir metra í loft upp. 

Indónesía er staðsett á hinum svokallaða eldhring (e. ring of fire), þ.e. stórum „hring“ sem myndaður er af skilum jarðfleka neðanhafs á Kyrrahafi, en eldvirkni er sérstaklega mikil á hringnum. 

26. desember 2004 olli jarðskjálfti, 9,3 að stærð, tsunami-flóðbylgju við strönd Súmötru með þeim afleiðingum að 220 þúsund manns létust í löndum umhverfis Indlandshaf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert