Lögreglan í Marokkó segir að mennirnir fjórir sem handteknir hafa verið vegna morða á skandinavísku vinkonunum Maren Ueland og Louisu Vestager Jespersen hafi haft það markmið að drepa ferðalanga.
Þetta kom fram á blaðamannafundi marokkósku lögreglunnar í dag.
„Fórnarlömbin voru valin af handahófi. Samkvæmt rannsakendum voru þeir ekki að leitast sérstaklega eftir því að myrða norska eða danska ferðamenn en þeir leituðust eftir því að drepa ferðamenn,“ sagði Boubker Sabik, talsmaður lögreglunnar.
Fjórir voru handteknir, grunaðir um morðin á Ueland og Jespersen. Yfirvöld í Marokkó og danska leyniþjónustan telja að morðin hafi verið hryðjuverkaárás vegna þess að hinir handteknu hafa lýst yfir stuðningi við Ríki íslams.
Á blaðamannafundinum kom einnig fram að einn mannanna hefði afplánað tveggja ára dóma fyrir brot tengt hryðjuverkum. „Hann var handtekinn árið 2013 og látinn laus tveimur árum síðar,“ sagði Sabik.
Abderrahmane Khayali var handtekinn fyrst en við yfirheyrslur benti hann á samverkamenn sína; þá Younes Ouaziad, Abdessamad Ijoud og Rachid Aftati. Þeir voru handteknir á fimmtudag í rútu á leið til ferðamannastaðarins Agadir.
Níu til viðbótar við mennina fjóra voru handteknir á fimmtudag vegna tengsla við sama hryðjuverkahóp. Við húsleit fundust efni til sprengjugerðar.
Sabik neitaði því að mennirnir hefðu fengið skipanir frá Ríki íslams um að fremja morðin en enginn þeirra hefur farið á stríðssvæði fyrir hönd hryðjuverkahópsins.
„Þetta voru einfarar sem ákváðu að fremja þessa hryðjuverkaárás.“