Fimm til handteknir í Marokkó

Marokkóskur almenningur fjölmennti við sendiráð Noregs og Danmerkur á laugardag …
Marokkóskur almenningur fjölmennti við sendiráð Noregs og Danmerkur á laugardag og bað aðstandendur og þjóðir kvennanna ungu, Maren Ueland og Louisu Vesterager Jespersen, afsökunar á ódæðum liðsmanna Ríkis íslams sem myrtu þær á hrottalegan hátt í fjöllum Marokkó í byrjun síðustu viku. Deila má um hvort það sé Marokkóbúa að biðjast velvirðingar á gjörðum hryðjuverkasamtaka. AFP

Alls hafa nú 18 manns verið handteknir, grunaðir um beinan verknað eða tengsl við hrottalegt dráp Skandinavanna Maren Ueland og Louisu Vesterager Jespersen, norsks og dansks háskólanema sem fundust látnar í Atlas-fjöllunum í Marokkó í síðustu viku en málið hefur vakið ótta og óbeit á Norðurlöndunum og í Marokkó.

Síðustu handtökurnar, fimm talsins, áttu sér stað í nokkrum bæjum Afríkuríkisins í gær, eftir því sem Abdelhak Khiam, stjórnandi andhryðjuverkateymis marokkóskra yfirvalda, segir fréttastofunni AFP en það er norska ríkisútvarpið NRK sem hefur fréttina eftir.

Norska rannsóknarlögreglan Kripos, danska rannsóknarlögreglan og marokkósk lögregluyfirvöld vilja enn hengja hatt sinn á þá kenningu að fjórir menn hafi framkvæmt sjálfan verknaðinn en telja engu að síður að mun fleiri séu sekir í málinu. Á myndskeiði, sem gengið hefur um allt lýðnetið og Kripos í Noregi hefur lagt á sig ómælda vinnu til að stöðva, sjást fjórmenningarnir í málinu hylla fána öfgasinnuðu hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams áður en þeir skera höfuðið af annarri kvennanna.

Einn hinna fjögurra, sem þyngstum grun sæta í málinu, Abderrahmane Khayali, mun hafa bent á samverkamenn sína þrjá við yfirheyrslu, Younes Ouaziad, Abdessamad Ijoud og Rachid Aftati, sem sérsveit lögreglu handtók skömmu síðar í langferðabifreið á leið frá Marrakesh til Agadir í Marokkó.

Sóttust eftir að ráða ferðamönnum bana

Marokkóska lögreglan segir mennina hafa sóst eftir því að ráða ferðamönnum bana, svo sem siður er hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, og segir lögregla enn fremur ekkert benda til þess að ferðamenn frá Noregi eða Danmörku hafi verið sérstakt skotmark þeirra, konurnar ungu, Norðmaður og Dani, skólasystur í norskum háskóla, hafi einfaldlega verið á röngum stað á röngum tíma.

Minningarathafnir um Ueland og Jespersen hafa verið haldnar í Danmörku og Noregi og kom fjöldi fólks að sendiráðum landanna í Marokkó nú rétt fyrir jólin til að votta hinum látnu virðingu sína og syrgja atburðinn. Forsætisráðherrar Danmerkur og Noregs hafa hvorir tveggju fordæmt ódæðið og kallaði Erna Solberg, forsætisráðherra í Noregs, það „grimmilegt og tilgangslaust“ á blaðamannafundi í síðustu viku.

Marokkóska þjóðin hefur brugðist ókvæða við aftökum kvennanna og greindu norska fréttastofan NTB og fjölmiðillinn ABC Nyheter frá því um helgina að almenningur á götum Marokkó krefðist dauðarefsingar yfir ódæðismönnunum, úrræðis sem fyrirfinnst í marokkóskum lögum en hefur þó ekki verið beitt síðan 9. ágúst 1993 þegar dæmdum nauðgara, Mohammed Tabet, var stillt upp fyrir framan aftökusveit og hann krafinn reikningsskila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert