Hækka viðvörunarstig vegna Anak Krakatau

Gosmökkurinn sést hér stíga upp frá Anak Krakatoa á annan …
Gosmökkurinn sést hér stíga upp frá Anak Krakatoa á annan dag jóla. AFP

Viðvörunarstig vegna indónesíska eldfjallsins Anak Krakatau hefur verið hækkað  og hefur nú öll umferð, þar með talið flugumferð, verið bönnuð á 5 km svæði við eldfjallið að því er BBC greinir frá.

Rúmlega 400 manns létust sl. laugardag eftir að 5 metra há flóðbylgja varð í sund­inu á milli indó­nes­ísku eyj­anna Jövu og Súmötru eftir að skriða féll úr eldfjallinu og hafa yfirvöld varað við að fleiri flóðbylgjur kunni að verða vegna mikilla úrhellisrigninga á svæðinu.

Eldvirkni í Anak Krakatau heldur hins vegar áfram að aukast og var bannsvæðið við eldfjallið því stækkað úr 2 km í 5 km radíus og er ferðafólki bannað að koma nær Anak Krakatau en því nemur að því er segir í yfirlýsingu frá almannavörnum Indónesíu.

Nokkur eldvirkni hefur verið í fjallinu frá því í júlí á þessu ári og hafa komið reglulega stutt gos á þeim tíma, en sl. vikur hefur virknin þó færst enn meira í aukana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert