7.000 slasaðir eftir flóðbylgjuna

Fjöldi þeirra, sem þurftu að yfirgefa heimili sín í kjölfar fimm metra hárrar flóðbylgju sem varð í sundinu á milli indó­nes­ísku eyj­anna Jövu og Súmötru á laugardag, hefur nú tæplega tvöfaldast. Segja indónesísk yfirvöld nú um 40.000 hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir að skriða féll úr eldfjallinu Anak Krakatau og olli flóðbylgjunni.

Þeim sem slösuðust í þessum náttúruhamförum hefur líka fjölgað verulega. Eru rúmlega 7.000 manns nú sagðir hafa slasast í kjölfar flóðbylgjunnar, en áður var talið að þeir væru um 1.500.

Tala látinna hefur hins vegar lækkað lítillega að sögn AFP-fréttaveitunnar og eru 426 manns nú sagðir vera látnir, en áður höfðu yfirvöld sagt flóðbylgjuna hafa kostað 430 lífið. Segja yfirvöld tvítalningu á nokkrum einstaklingum í tveimur héruðum vera ástæðu þessa.

Tuga er þá enn saknað og tæplega 1.300 heimili eyðilögðust.

Greint var frá því í gær að viðvör­un­arstig vegna Anak Krakatau hafi verið hækkað  og hef­ur nú öll um­ferð, þar með talið flug­um­ferð, verið bönnuð á 5 km svæði við eld­fjallið, en eldvirkni í gígnum hefur færst í aukana undanfarið.

Þá hafa yfirvöld varað við að fleiri flóðbylgjur geti orðið vegna aukinnar virkni í eldgígnum. Myndir frá japönskum gervihnetti sýna að tveggja ferkílómetra stór skriða sem féll úr eldfjallinu á laugardag olli flóðbylgjunni.

„Við mælum með að þeir sem búa í nágrenni strandarinnar verði fluttir varanlegum búferlaflutningum,“ hefur AFP eftir Sutopo Purwo Nugroho hjá indónesísku almannavörnunum.

„Það er hins vegar lokaúrræði. Það er ekki auðvelt með takmarkað rými eða þegar fólk er tregt til þess að fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert