Indverska dagblaðið Times of India fjallar í dag um banaslysið við Núpstaðavötn og ræðir við bróður mannanna sem nú liggja á Landspítalanum. Blaðið segir örvæntinguna ekki hafa leynt sér hjá þriðja bróðurnum, Sarvesh Laturia, í símaviðtali.
„Þetta voru bræður mínir tveir og eiginkonur þeirra,“ sagði Lathuria. „Þeir eru breskir og voru í fríi á Íslandi. Bíll þeirra lenti í slysi og mágkonur mínar og bróðurdóttir mín létust. Bræður mínir eru núna illa haldnir á spítala.“
Í umfjöllun Times of India segir að draumavetrarfríið hafi breyst „í martröð þegar Land Cruiser jeppinn steypist fram af brúnni með þeim afleiðingum að þrír Bretar af indverskum uppruna létust og fjórir aðrir fjölskyldumeðlimir slösuðust alvarlega.“
Blaðið ræðir einnig ræðir við indverska sendiherrann á Íslandi T. Armstrong Changsan sem hefur þegar heimsótt mennina á spítalann og sagði hann ástand þeirra nú vera stöðugt.
„Þeir eru breskir ríkisborgarar af indverskum uppruna og eiga fjölskyldu á Indlandi. Bróðir þeirra er á Indlandi og hann þarf nauðsynlega á vegabréfsáritun að halda til að komast hingað. Íslensk yfirvöld eru að reyna að aðstoða við að láta þetta gerast.“
Sagði Changsan breska vini fjölskyldunnar þá vera á leið til Íslands til að aðstoða fjölskylduna, auk þess sem breska sendiráðið sé að vinna í málinu.