Heill dýrastofn gæti þurrkast út

Anak-Krakatau þann 23. desember, daginn eftir að flóðbylgja sem orsakaðist …
Anak-Krakatau þann 23. desember, daginn eftir að flóðbylgja sem orsakaðist af virkni fjallsins skall á eyjunum Jövu og Súmötru. AFP

Náttúruverndarsinnar vara nú við því að tegund Javan-nashyrninga gæti með öllu dáið út verði önnur flóðbylgja af völdum Anak-Krakatau eldfjallsins á milli eyjanna Jövu og Súmötru á Indonesíu, að veruleika.

Javan-nashyrningar voru eitt sinn nokkuð algengir í Suðaustur-Asíu og á Indlandi en í dag eru þeir einungis 67 og lifa allir í Ujung Kulon-þjóðgarðinum á Jövu sem varð fyrir flóðbylgju í síðustu viku. Alls létust um 430 manns í hörmungunum og mörg þúsund særðust. Nashyrningana sakaði ekki en tveir þjóðgarðsverðir létust.

Virknin í Anak-Krakatau-eldfjallinu er enn mikil og hefur í raun magnast frá flóðbylgjunni síðasta laugardag. Þá hefur fjallið misst gríðarlegan hluta hæðar sinnar eftir eldsumbrotin síðustu daga og mánuði. Stjórnvöld hafa enn ekki útilokað aðra flóðbylgju og skoða nú þann möguleika að flytja nashyrningana í öruggt skjól í tilraun sinni til að bjarga stofninum.

Gætu þurrkast út á augabragði

Javan-nashyrningarnir eru í mestri útrýmingarhættu af þeim 5 nashyrningastofnum sem til eru í heiminum. Viðkvæmt ástand stofnsins í dag má aðallega rekja til veiðiþjófnaðar og landbúnaðar sem hefur eyðilagt stærstan hluta af búsvæði þeirra.

Einingis 67 Javan-nashyrningar eru eftir í dag.
Einingis 67 Javan-nashyrningar eru eftir í dag. AFP

Javan-nashyrningarnir finnast hvergi annarsstaðar en í Ujong Kulon-þjóðgarðinum og á stofninn það því á hættu að vera með öllu þurrkaður út á augabragði ef önnur flóðbylgja skellur á Jövu.

Samkvæmt BBC skoða yfirvöld nú áætlanir um að færa hluta stofnsins á annan stað, en það er þó hægara sagt en gert. Nashyrningarnir verða að vera við góða heilsu, tengjast ferðafélögum sínum nánum böndum og geta fjölgað sér.

Þá þarf hið nýja heimili þeirra að hafa yfir 200 tegundir planta sem mynda fæði Javan-stofnsins. Það þyrfti einnig að búa yfir ríkulegum vatnsforða, fyrirmyndar jarðvegi og röku loftslagi allan ársins hring.

„Það er erfitt að finna hina fullkomnu staðsetningu. Við þurfum að minnsta kosti fimm þúsund hektara landsvæði. Það þarf að útvega viðeigandi fæði og vatn. Við þurfum að vita hvaða sjúkdómar eru þar, hvort það séu rándýr, hversu mikla stoð samfélagið veitir,“ sagði forstöðumaður Ujong Kulon-þjóðgarðsins, Mamat Rahmat, í samtalið við BBC.

Eyðileggingin vegna flóðbylgjunnar var gríðarleg.
Eyðileggingin vegna flóðbylgjunnar var gríðarleg. AFP

Stjórnvöld í Indónesíu hafa leitað árum saman að viðeigandi heimili fyrir Javan-stofninn. Þeim virtist hafa tekist að finna það á síðasta ári en flutningur dýranna varð aldrei að veruleika.

Eftir flóðbylgjuna síðasta laugardag hafa stjórnvöld þó tekið við sér að nýju og virðast viðbúin að bregðast hratt og af ákafa við.

„Við munum stíga næstu skref fljótlega í að undirbúa annað heimili fyrir nashyrningana,“ sagði Mamat Rahmat við BBC. „Ef Ujung Kulon verður fyrir gosi einn daginn þá verða vonandi aðrir nashyrningar til vara á nýjum stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert