„Sprelllifandi eldfjall“

Gosið í Anak-Krakatau hefur tekið að minnka.
Gosið í Anak-Krakatau hefur tekið að minnka. AFP

„Núna eru hlutirnir að róast aðeins. Gosið hefur minnkað eftir að það gaf í áður en gígurinn féll saman. Þess vegna skreið það í sjó fram og olli þessari flóðbylgju,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um Anak-Krakatú eldfjallið í Indónesíu. Um 430 manns létust þegar flóðbylgja skall á eyjunum Jövu og Súmötru í kjölfar eldsumbrota í fjallinu.

„Núna erum við að fá alvöruradarmyndir eftir að askan hætti að trufla okkur til að sjá hvað hefur gerst. Við sjáum það að gígurinn hefur fallið saman og hrunið út í sjó og það var það sem skapaði þessa flóðbylgju sem var svona afdrifarík,“ segir Ármann.

Áhrifin tímabundin

Radarmyndir sýna sláandi mun á Anak Krakatau eftir að aðalgígur …
Radarmyndir sýna sláandi mun á Anak Krakatau eftir að aðalgígur eyjunnar féll í sjó fram. Radarmynd/ESA copernicus

Ármann segir að í augnablikinu sé að draga úr gosinu, en fjallið hefur misst um tvo þriðju hluta af umfangi sínu og hæð á síðustu dögum.

„Þetta hefur engin áhrif á eldfjallið sjálft og eldvirknina, það stjórnast af miklu dýpri rótum. Það næsta sem gerist er að fjallið fer núna að byggja sig aftur upp, upp fyrir sjávarmál. Það tekur einhvern tíma. Þetta er ekkert varanlegt, þetta er sprelllifandi eldfjall.“

Virknin í Anak-Krakatú eldfjallinu hefur verið nokkuð mikil í desembermánuði, en fjallið hefur þó verið að gjósa með hléum bróðurpart ársins.

40.000 fórust árið 1883

Aðspurður segir Ármann þetta ekki vera í fyrsta skiptið sem Krakatú fellur saman og veldur flóðbylgju. Afleiðingarnar hafi þó verið mikið verri þá.

„Það var árið 1883 og þá var þetta miklu stærra eldfjall. Það sprakk þá í tætlur og í kjölfarið varð risaflóðbylgja á þessu svæði í Sundasundi sem drap um 40.000 manns.

„Þetta er miklu umfangsminna. Það var bara óheppni að það var stórstreymt og aðstæður voru vondar, það var hæsta mögulega sjávarstaða og strendurnar eru lágar og svo kemur þarna 2 eða 3 metra há flóðbylgja og hún nær svona langt inn í land.“

Virknin í fjallinu hefur verið gríðarleg síðustu daga. Myndin er …
Virknin í fjallinu hefur verið gríðarleg síðustu daga. Myndin er tekin 23. desember, daginn eftir að flóðbylgjan skall á Súmötru og Jövu. AFP

Ármann segir virkni Krakatú alls ekki óeðlilega fyrir þessar slóðir.

„Þetta kallast samgengi. Indlandshaf er að ganga þarna niður og inn í jörðina aftur og þá myndast svona eldfjöll. Anak-Krakatú er bara eitt svona eldfjalla nema það er í sjónum en ekki á landi. Það er mjög mikil eldvirkni í Indónesíu. Þar eru þúsundir eldfjalla og alltaf eitthvað í gangi.“

Ekki hætta á annarri flóðbylgju strax

Ármann telur það ólíklegt að Krakatú verði til mikilla vandræða í nánustu framtíð.

„Það er þó mjög erfitt að segja til um það. Ég myndi halda að næsta skref sé bara að fjallið byggi sig upp aftur. Þegar það er búið að byggja sig upp einhverja hundrað metra þá erum við bara aftur komin í sömu aðstæður. En það gæti tekið nokkur ár.

Það sem gerðist fyrir flóðbylgjuna á laugardaginn var að virki gígurinn hrundi og fór út í sjó, svipað og gerðist við Öskju árið 2014 þegar við fengum skriðu í Öskjuvatn. Það er núna kominn smá vogur við fjallið. Gígurinn fór allur út í sjó og er núna í voginum og þarf að byggja sig upp aftur áður en það verður einhver meiri háttar hætta á að það verði önnur flóðbylgja af þessari stærðargráðu.“

Hér að neðan má sjá myndskeið frá Guradian af virkni eldfjallsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert