Óttast ofbeldi í mótmælum helgarinnar

Lögregla beitir táragasi gegn mótmælendum í Nantes.
Lögregla beitir táragasi gegn mótmælendum í Nantes. AFP

Yfirvöld í Frakklandi óttast að mótmæli gulvestunga þessa helgina verði enn fjölmennari og ofbeldisfyllri en mótmælin síðustu helgi. Viss þreyta virtist gera vart við sig hjá mótmælendum í lok árs, en þeir virðast nú vera að sækja í sig veðrið á ný.

Eric Morvan, ríkislögreglustjóri Frakklands, sagði í samtali við France Inter-útvarpsstöðina að hann ætti von á sambærilegum fjölda og fyrir jólahátíðina, en þetta verður níunda helgin í röð sem mótmælt er víða um land. Ítrekað hefur komið til átaka milli mótmælenda og lögreglu og eignaspjöll hafa víða verið umtalsverð.

Um 50.000 manns mótmæltu síðasta laugardag í París og ýmsum öðrum borgum og er það aukning frá lokum síðasta árs. Það fer þó fjarri því að ná þeim mikla fjölda sem tók þátt í fyrstu mótmælunum um miðjan nóvember, er 300.000 manns tóku þátt.

Michel Delpuech, lögreglustjóri Parísar, kvaðst búast við að fleiri en þeir 3.500 sem tóku þátt í mótmælum í borginni um síðustu helgi, mæti nú um helgina og segir þá líklegri til að beita ofbeldi.

Reyndu að brjóta niður dyr ráðuneytis með lyftara

Mótmælin í síðustu viku einkenndust á ný af sambærilegum átökum og eignaspjöllum og einkenndu mótmælin fyrstu vikurnar. AFP-fréttastofan segir myndbandsupptöku af hópi mótmælenda nota lyftara til að reyna að brjóta niður dyr í ráðuneyti Benjamin Griveaux, talsmanns stjórnarinnar, hafa þótt yfirgengilegt, sem og myndband af fyrrverandi atvinnuboxara sem sést berja á tveimur lögreglumönnum sem vörðuðu leiðina yfir eina af brúnum yfir Signu.

„Viku eftir viku höfum við fylgst með ofbeldinu aukast,“ sagði Delpuech við France Inter og bætti við að helstu táknmyndir stjórnarinnar væru nú orðin helstu skotmörk mótmælenda.

Gulvestungar aftur á móti saka lögreglu um að bera eld að glæðunum með frjálslegri notkun á táragasi, gúmmíkúlum og leiftursprengjum gegn mótmælendum. Þá hafa þeir bent á myndband sem tekið var í borginni Toulon og sem sýnir varðstjóra í lögreglunni berja á mótmælendum.

Ákveðnir í að koma Macron úr embætti

Stjórn Emmanuel Macron Frakklandsforseta tekur nú æ harðar á mótmælunum, en mótmælendur saka forsetann um að horfa fram hjá áhyggjum almennra borgara og leggjast þess í stað á sveif með hinum efnameiri með fjármálastefnu sinni. Eru sumir mótmælendanna harðákveðnir í að koma Macron úr embætti.

Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, tilkynnti í dag að 80.000 lögreglumenn verði að störfum víðs vegar um Frakkland á laugardag. „Þeir sem draga stofnanir okkar í efa fá ekki að eiga síðasta orðið,“ sagði Philippe og kvað í undirbúningi lagafrumvarp sem banni „vandræðaseggjum“ að taka þátt í mótmælum.

Macron reyndi að friðþægjast við mótmælendur í desember er hann greindi frá að 10 milljörðum evra yrði eytt í launahækkanir og skattalækkanir fyrir þá tekjulægstu. Það dugði hins vegar ekki til og sýndi nýleg skoðanakönnun að 77% aðspurðra tortryggja  stjórnmálamenn sem valdi þeim „tortryggni“, „viðbjóði“ og „leiðindum“.

Mótmælandi kastar járngrind í lögreglu í París um síðustu helgi.
Mótmælandi kastar járngrind í lögreglu í París um síðustu helgi. AFP
Mótmælendur í gulum vestum á Bastillutorginu í París síðasta föstudag.
Mótmælendur í gulum vestum á Bastillutorginu í París síðasta föstudag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert