Fjölmenni við útför Jespersen

Maren Ueland og Louisa Vesterager Jespersen.
Maren Ueland og Louisa Vesterager Jespersen. Ljósmyndir/Úr einkasafni/Samsett mynd norska ríkisútvarpið NRK

Fjölmenni kom saman þegar Louisa Vesterager Jespersen var borin til grafar í Danmörku í dag. Þeirra á meðal var Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. Lík Jespersen og hinnar norsku Maren Ueland fundust illa útleikin á tjaldsvæði á Atlasfjalli í Marokkó í desember.

Jespersen var aðeins 24 ára gömul þegar hún lést og Ueland 28 ára. Þær fund­ust látn­ar þar sem þær höfðu tjaldað í fjöllunum í El Haouz-héraði, skammt frá ferðamanna­bæn­um Imlil. Þær voru á bak­poka­ferðalagi um Mar­okkó.

Þarlend yfirvöld segja að þær hafi verið afhöfðaðar og þetta hafi verið hryðjuverkaárás. 

Athöfnin í dag fór fram í Fonnesbæk-kirku í Ikast á Mið-Jótlandi. 

Forsætisráðherrann ávarpaði kirkjugesti og sagði, rétt áður en kistan var borin út úr kirkjunni, að Danir myndu aldrei gleyma Jespersen.

„Þrátt fyrir að sársaukinn sé óbærilegur megum við aldrei láta undan. Við verðum að muna hver við erum, hverju við erum búin til úr og fyrir hvað við stöndum,“ sagði Rasmussen. 

Fram kemur í dönskum fjölmiðlum að um 400 manns hafi verið viðstaddir athöfnina í kirkjunni. Hún er ekki mjög stór og var brugðið á það ráð að opna hliðarherbergi til að taka á móti fjöldanum. 

Yfirvöld í Marokkó hafa handtekið 22 einstaklinga í tengslum við morðin. Þeirra á meðal eru fjórir menn sem eru grunaðir um að hafa banað konunum og spænsk-svissneskur maður sem er sagður tengjast fjórmenningunum og talinn aðhyllast hugmyndafræði öfgahópa. 

Fjórmenningarnir eru taldir tengjast samtökum sem eru undir áhrifum Ríkis íslams, en enginn þeirra tengist með beinum hætti liðsmönnum samtakanna í Sýrlandi eða Írak. 

Jespersen og Ueland voru í ferðamálafræði við háskóla í Noregi. Þær ákváðu að fara í mánaðarlangt frí til Marokkó og komu til landsins 9. desember. Þær ferðuðust að Toubkal-fjalli, sem er hæsta fjall Norður-Afríku, ekki langt frá ferðamannabænum Imil. 

Vinir þeirra segja að þær hafi verið ævintýragjarnar og mjög félagslyndar. 

Útför Ueland mun fara fram í Noregi 21. janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert