Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokksins, verður áfram forsætisráðherra. Fjórir mánuðir eru frá því sænska þjóðin gekk að kjörborðinu en greidd voru atkvæði um Löfven á sænska þinginu í morgun og var tillagan samþykkt.
Atkvæðagreiðslan hófst klukkan níu að sænskum tíma og gerðu ýmsir þingmenn grein fyrir atkvæði sínu. Jafnaðarmenn og Græningjar mynda nýja ríkisstjórn líkt og þeir gerðu áður en sjaldan ef nokkurn tímann hefur ríkisstjórn verið mynduð með jafn lítinn stuðning á bak við sig síðustu sjötíu árin í Svíþjóð. Flokkarnir tveir eru með 32,7% atkvæða á bak við sig.
Miðflokkurinn og frjálslyndir hafa heitið ríkisstjórnarsamstarfinu stuðningi sem þýðir að þeir eru með 167 þingsæti af 349 á bak við sig. En til þess að tryggja meirihluta þarf 175 þingmenn.
Vinstriflokkurinn, sem studdi minnihlutastjórn sömu flokka frá árinu 2014, hefur ákveðið að verja stjórnina falli en flokkurinn er með 28 þingmenn á bak við sig þannig að búið er að tryggja að ný ríkisstjórn er með meirihluta.
Hér er hægt að fylgjast með atkvæðagreiðslunni
Allir þingmenn jafnaðarmanna og Græningja greiddu atkvæði með Löfven, alls 115 þingmenn en þingmenn Mið-, Frjálslynda og Vinstriflokksins sátu hjá. Þingmenn Moderna, Kristilegra demókrata og Svíþjóðardemókrata greiddu atkvæði gegn tillögu Andreas Norlén, forseta þingsins, um að Löfven verði áfram forsætisráðherra.
Atkvæðagreiðslan í dag er sú þriðja um embætti forsætisráðherra frá því Svíar gengu að kjörborðinu fyrir 131 degi. Aldrei áður hefur gengið jafn illa að mynda starfshæfa ríkisstjórn í Svíþjóð og nú. Bandalag mið- og vinstriflokkanna (Jafnaðarmannaflokkurinn, Græningjar og Vinstriflokkurinn) fékk 144 þingsæti í kosningunum. Bandalag miðju og hægri fékk 143 þingmenn (Moderna, Frjálslyndir, Miðflokkurinn og Kristilegir demókratar) og þjóðernisflokkurinn, Svíþjóðardemókratar, fékk 62 þingsæti. Þannig að hvorugt bandalag gat myndað ríkisstjórn án stuðnings annarra flokka.
Eftir að Löfven var hafnað í atkvæðagreiðslu um forsætisráðherra reyndu Moderna og Kristilegir demókratar að mynda nýja ríkisstjórn án árangurs en ekki var vilji fyrir því að fá Svíþjóðardemókrata að stjórninni.