Gulvestungur á leið í réttarsalinn

AFP

Fyrrverandi atvinnumaður í hnefaleikum, Christophe Dettinger, mætir fyrir rétt í dag en hann hefur verið ákærður fyrir að hafa slegið lögreglumann sem var að störfum í París í janúar. Dettinger er einn þeirra sem hefur tekið þátt í mótmælum gulvestunga. Hann á yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi.

Christophe Dettinger, sem er 37 ára, náðist á mynd þar sem hann sló lögreglumann niður í átökum milli lögreglu og gulvestunga á bökkum Signu 5. janúar.

Myndskeiðið fór víða, bæði í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og vakti mikla reiði endaDettinger yfir 1,90 metrar að hæð og fyrrverandi atvinnumaður í hnefaleikum. Ýmsir félagar hans úr hópi gulvestunga hrósa honum mjög fyrir hetjuskapinn og hvernig hann taki á lögreglumanninum.

AFP

Gulvestungar hafa mótmælt í París og víðar undanfarna mánuði en mjög hefur fækkað í þeirra hópi. Sex voru handteknir í gærmorgun eftir að hafa notað lyftara til þess að ráðast inn á skrifstofu upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, Benjamin Griveaux, sama dag og Dettinger réðst á lögreglumanninn.

Að sögn saksóknara í París eru feðgar á meðal þeirra sem eru í haldi vegna þess máls. Frá því mótmælin hófust hafa 1.796 verið dæmdir fyrir þátttöku í óeirðum. Flestir fyrir að skemma opinberar eignir og ofbeldi gagnvart lögreglu. Tæplega 1.500 bíða réttarhalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka