SVT braut gegn hlutleysisákvæði

Sænska ríkissjónvarpið hefur verið úrskurðað hafa brotið gegn hlutleysiskröfu þegar …
Sænska ríkissjónvarpið hefur verið úrskurðað hafa brotið gegn hlutleysiskröfu þegar afstöðu þess var lýst til orða Jimmie Åkessons í leiðtogaumræðunum um innflytjendamál. AFP

Sænska ríkissjónvarpið SVT braut gegn hlutleysiskröfu fjölmiðla þegar þulur í umræðuþætti stöðvarinnar um innflytjendamál sagði SVT telja orð Jimmie Åkesons, formanns Svíþjóðardemókrata, vera grófar alhæfingar sem endurspegluðu ekki afstöðu stöðvarinnar, að því er segir í úrskurði rannsóknarnefndar sænsku fjölmiðlastofnunarinnar (s. Myndigheten för press, radio och tv).

Þátturinn var í beinni útsendingu í aðdragenda sænsku þingkosninganna síðastliðið haust.

Þegar umræðan í þættinum sneri að atvinnuþátttöku innflytjenda sagði Åkeson: „Það hefur alltaf verið sagt að þeir muni aðlagast ef þeir bara fá vinnu og þá gangi allt vel. En þetta gerist ekki. Þá verður maður að spyrja sig hvers vegna er svona erfitt fyrir þetta fólk að fá vinnu? Það er vegna þess að það er ekki sænskt, vegna þess að það passar ekki inn í sænskt samfélag og þá er erfitt að fá vinnu.“

Greip þá Annie Lööf fram í og gagnrýndi Åkeson. Hann hélt þó áfram og sagði: „Þá er auðvitað erfitt að fá vinnu og þá þarf að tryggja að maður geti orðið sænskur. Það verða að vera fastsettar leiðir fyrir fólk að aðlagast.“

Sniðgengu SVT

Í kjölfar þáttarins ákváðu Svíþjóðardemókratar að sniðganga sænska ríkissjónvarpið þar sem flokkurinn taldi alvarlega að sér vegið með yfirlýsingu SVT og ekki síst því að með yfirlýsingunni hefði stöðin tekið afstöðu gegn flokknum, sem væri fordæmalaust í sænskri stjórnmálasögu.

Flokkurinn kvaðst hins vegar vera reiðubúinn til þess að endurskoða þessa afstöðu sína bæristr afsökunarbeiðni frá SVT.

Engin slík afsökunarbeiðni barst og var fréttamönnum SVT meinaður aðgangur að kosningavöku flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert