Fjórtán manns verða ákærðir í Danmörku fyrir að deila á samfélagsmiðlum myndbandi af því þegar ung, skandinavísk kona var drepin í Atlas-fjöllunum í Marokkó í desember. Tvær ferðakonur voru stungnar til bana, Daninn Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Norðmaðurinn Maren Ueland. Lík þeirra fundust á afskekktum stað suður af borginni Marrakesh 17. desember. Konurnar höfðu verið skornar á háls og afhöfðaðar, að sögn marokkósku lögreglunnar.
Myndband af öðru morðinu fór í umferð á netinu. Lögreglan telur það ósvikið. Lögreglustjórinn á Austur-Jótlandi, Michael Kjeldgård, segir í yfirlýsingu að fjórtán manns séu grunaðir um refsivert athæfi með því að hafa deilt myndbandinu, m.a. á Facebook Messenger. Í hópnum eru sex unglingar á aldrinum 13 og 18 ára.
Yfirvöld í Marokkó segja að morðin hafi verið hryðjuverk og hafa ákært yfir tuttugu manns í tengslum við þau.