Bandaríska Haf- og loftslagsstofnunin, NOAA, skoðar nú hvort takmarka eigi enn frekar veiðar í Puget-sundi norður af Washington-ríki til að forða suðlæga, staðbundna háhyrningsstofninum frá útrýmingu.
Í frétt á vef Seattle Times segir að í kjölfar nýrra rannsókna á fiski sem háhyrningarnir lifa á á þessum slóðum hafi stofnunin sent veiðimálayfirvöldum bréf þar sem fram kemur að verið sé að skoða hvort að frekari takmarkanir á veiðum sé þörf bæði í sjónum og í ám sem chinook-laxinn gengur í.
Hafrannsóknarstofnunin komst að því árið 2009 að veiðar stefndu háhyrningunum ekki í hættu en síðan þá hefur miklu magni nýrra upplýsinga verið aflað, m.a. um fæðu þeirra. Því hefur stofnunin ákveðið að endurskoða ákvörðun sína.
Verið er að stoða hvort takmarka eigi veiðar á ákveðnum stöðum og/eða á ákveðnum árstímum.
Suðlægu, staðbundnu háhyrningarnir eru nú aðeins 74 og er stofninn í sögulegu lágmarki. Þeir lifa helst á chinook-laxinum, sem nú er orðinn af skornum skammti. Einnig er talið að mengun, m.a. hávaðamengun, geri illt verra.
Ofveiði á chinook-laxinum er ekki kennt um ástandið. Hann á hins vegar erfiðar en áður með að ganga upp árnar til hrygningastöðva sinna vegna stíflna í ánum. Ein helsta fæða hans er síld og merki eru um fækkað hafi í stofni hennar.
Hafrannsóknarstofnunin segir að veiðar geti haft bein áhrif á heilsu háhyrninganna. Þeir finna sjaldnar fæði og þurfa að synda lengri leiðir til nærast. Ekki er talið líklegt að gripið verði til frekari takmarkana á veiðum í ár.