„Eru hér til að berjast og slást“

Átök brutust út milli hóps mótmælenda og lögreglu í París í dag þar sem gulvestungar komu saman 18. helgina í röð til að mótmæla efna­hagsaðgerðum Emm­anu­el Macron, for­seta Frakk­lands, og krefjast bættra kjara almennings. 

Töluvert hefur fækkað í hópi mótmælenda síðustu vikur en forsvarsmenn gulvestunga kölluðu eftir að aukinn kraftur yrði settur í mótmælin um helgina. Niðurstaðan varð mikil eyðilegging á götum Parísarborgar, bæði í almenningsrýmum og í verslunum. Þá hafði lögreglan afskipti að hópi mótmælenda sem reyndi að vinna skemmdir á Sigurboganum. 

Talið er að alls hafi um átta þúsund manns mótmælt í París í dag og þar af eru um 1.500 manns skilgreindir sem „ofbeldisfullir mótmælendur,“ að sögn Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands. „Þeir eru hér til að berjast og slást, eyðileggja og valda tjóni. Í morgun reyndu þeir að gera aðsúg að Sigurboganum í tvígang.“ 

Lögreglan beitti táragasi og öflugum vatnsbyssum gegn mótmælendum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert