Flugmaðurinn sem flaug vélinni sem fórst í Ermarsundi í janúar með þeim afleiðingum að hann og knattspyrnumaðurinn Emiliano Sala létust, var vanhæfur til þess að fljúga vélinni í þeim aðstæðum sem voru þetta örlagaríka kvöld.
Mánudagskvöldið 21. janúar fór Sala af stað frá Nantes til Cardiff í lítilli eins hreyfils vél af gerðinni Piper Malibu ásamt flugmanninum David Ibbotson. Um klukkan 20.30 hvarf vélin af ratsjám. Flak vélarinnar fannst ekki fyrr en tveimur vikum síðar.
BBC greinir frá því í dag að rannsókn á slysinu hafi leitt í ljós að Ibbotson var ekki hæfur til þess að fljúga í myrkri. Flugleyfi hans var takmarkað við flug í dagsbirtu, auk þess sem hann var litblindur. Sérfræðingur sagði við BBC að til þess að geta flogið í myrkri þurfi að vera hægt að greina á milli grænna og rauðra ljósa.
„Það að fljúga utan þess tíma sem réttindin segja er ólöglegt og getur haft áhrif á það hvort tryggingar greiði út bætur,“ segir sérfræðingurinn við BBC.
Samkvæmt upplýsingum átti vélin upphaflega að fara í loftið klukkan níu um morguninn, en var frestað til klukkan sjö um kvöldið. Sala hafði óskað eftir því til þess að geta kvatt gömlu liðsfélaga sína í Nantes áður en hann hélt á sína fyrstu æfingu með Cardiff.
Þegar vélin tók á loft var liðin rúm klukkustund frá sólsetri.