Macron boðar breytingar

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, mun í dag gefa út tillögur til úrbóta í kjölfar mótmæla sem kennd hafa verið við gul vesti og staðið hafa yfir í landinu í fimm mánuði. 

Verkefni forsetans er stórt því mótmælendahópurinn er fjölbreyttur og kröfur hans sömuleiðis. Því mun ein aðgerð ekki ná að sefa fjöldann. 

Macron varð forseti fyrir tveimur árum og boðaði breytingar en þeim var svo harðlega mótmælt af gulvestungum. Macron brást við mótmælahrinunni m.a. með því að standa að fjölmörgum íbúafundum. „Við höfum ákveðið að breyta reiðinni í lausnir,“ skrifar Macron á Twitter. „Í nokkra mánuði hafið þið sagt okkur hvað ykkur finnst og við höfum hlustað. Í kvöld mun ég svara ykkur.“

Macron mun halda ræðu í kvöld klukkan 18 að íslenskum tíma. Einn aðstoðarmanna hans segir við AFP-fréttastofuna að mikilla breytinga sé að vænta og að þær eigi að stilla til friðar í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert