Reyna allt til að kveða niður Katalóna

Carles Puigdemont á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum.
Carles Puigdemont á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum. AFP

„Það er frekar aumkunarvert að öflugt ríki á borð við Spán skuli finna sig knúið til að setja efst á forgangslista sinn í utanríkismálum andsvör við hreyfingu á borð við okkar, sem hefur úr mjög litlu að spila,“ segir Carles Puidgemont, leiðtogi Katalóna, sem í tvö ár hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu og á yfir höfði sér fangelsi snúi hann aftur til heimkynna sinna í viðtali, sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

„Um leið skil ég hvers vegna þeir gera það. Vegna þess að þó að við höfum ekki mikið milli handanna er sannleikurinn okkar megin. Og það er mjög erfitt að eiga við fólk sem hefur sannleikann sín megin. Þeir hafa notað alla anga stjórnkerfisins og allt sitt bolmagn, allar þær leiðir til að skapa þrýsting sem ríkið hefur yfir að ráða.“

Frá mótmælagöngu í Madrid til stuðnings Puidgemont.
Frá mótmælagöngu í Madrid til stuðnings Puidgemont. AFP

Puigdemont segir í viðtalinu, sem Thomas S. Harrington, prófessor í rómönskum fræðum við Trinity-háskóla í Bandaríkjunum, tók við hann, að spænsk stjórnvöld reyni með öllum tiltækum ráðum að kveða niður málstað Katalóna.


„Við gætum byrjað á öllum þrýstingnum, sem fulltrúar þeirra í utanríkisþjónustunni hafa beitt í þriðja heims ríkjum,“ segir hann. „Fyrir hverja einustu ræðu sem ég eða einhver úr hreyfingunni flytur er hringt ítrekað í skipuleggjendur og styrkveitendur til að þrýsta á þá um að aflýsa viðburðinum. Sumum hefur meira að segja verið aflýst. Og þegar þeim er ekki aflýst er einhver fenginn til að standa upp meðal áheyrenda og tala gegn okkar málstað. Þeir gera allt til að við höfum ekki rödd. Síðan er þrýst á fjölmiðla um að breiða út falsfréttir um sjálfstæðisferlið í Katalóníu. Við gætum einnig talað um samninga um að senda herlið til ákveðinna Eystrasaltsríkja í skiptum fyrir þögn þeirra um málefni Katalóníu.“

Carles Puigdemont fyrir framan fangelsi í Neumuenster í norðurhluta Þýskalands …
Carles Puigdemont fyrir framan fangelsi í Neumuenster í norðurhluta Þýskalands 25. mars. AFP

Hann kveðst skilja að málstaður Katalóna hafi ekki meiri hljómgrunn meðal ríkja Evrópusambandins.

„Það er eðlilegt. Spánn er félagi þeirra í ESB. Við vissum frá upphafi að þeirra fyrsta viðbragð yrði að styðja bandamann sinn, eða í það minnsta að mótmæla honum ekki,“ segir hann. „Við skiljum líka að mörg aðildarríki hafa ekki sömu hefð og til dæmis Bretar til að leysa slíka hluti. Margir óttast þjóðahreyfingar innan eigin landamæra. Sá ótti er mikill í Frakklandi og á Ítalíu. Loks má ekki gleyma að Evrópa er frekar viðskiptalegt verkefni en pólitískt og í efnahagslífinu er stöðugleiki metinn framar öllu. Því kemur ekki á óvart að ekki sé mikill áhugi í Evrópu á að verja grundvallarréttinn til sjálfsákvörðunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka