Saksóknari í París hefur hafið rannsókn á vígorðum sem mótmælendur í París æptu að lögreglu í mótmælum í borginni á laugardag. Hvöttu þeir ítrekað lögreglumenn til þess að taka eigið líf. Það sem af er ári hafa 28 franskir lögreglumenn framið sjálfsvíg en allt árið í fyrra voru þeir 35.
Um er að ræða mótmælendur úr hópi gulvestunga sem hafa undanfarnar 23 helgar farið út á götur Parísar og mótmælt stefnu forseta landsins, Emmanuel Macron. Á ýmsu hefur gengið og gríðarleg skemmdarverk unnin samfara mótmælunum en mörgum þótti keyra um þverbak á laugardag þegar mótmælendurnir æptu: Fremjið sjálfsvíg, fremjið sjálfsvíg! (Suicidez-vous !) að lögreglumönnum sem voru á vakt.
Innanríkisráðherra Frakklands, Christophe Castaner, skrifar um þetta á Twitter og segir að þeir ættu að skammast sín en hann birti myndskeið með færslunni þar sem áhrínisorð mótmælenda óma.
Formaður bandalags lögreglumanna (Alliance), Frederic Lagache, segir að lögreglan hafi þurft að þola ýmislegt af hálfu mótmælenda en nú hafi þeir einfaldlega gengið of langt. Þetta sé árás á alla þá lögreglumenn sem hafi dáið og fjölskyldur þeirra.
Ríkislögreglustjóri Frakklands, Eric Morvan, skrifaði bréf til allra lögreglumanna landsins nýverið þar sem hann fjallaði um fjölda sjálfsvíga í stéttinni. Að sjálfsvíg væru eitthvað sem þyrfti að ræða og án þess að viðkomandi þurfi að óttast að vera dæmdur.
Franskir lögreglumenn hafa ítrekað kvartað undan álagi í starfi ekki síst vegna aukavakta um helgar vegna mótmælanna. Á fimmtudag frömdu tveir lögreglumenn sjálfsvíg. Lögreglumaður skaut sig til bana á heimili sínu í Villejuif, skammt fyrir utan París og lögregluvarðstjóri skaut sig til bana á skrifstofu sinni í Montpellier. Mikil sorg ríkir meðal íbúa í Montpellier og tóku hundruð lögreglumanna þátt í minningarathöfn um varðstjórann, tveggja barna móður, fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í borginni.