Réttarhöld yfir fólki sem er grunað um aðild að morði á tveimur ungum norrænum konum í Marokkó í fyrra hefjast í Sale í Marokkó á fimmtudag.
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára danskur nemi og Maren Ueland, 28 ára gamall norskur nemi, voru teknar af lífi á tjaldstæði í Atlasfjöllunum í desember. Þrír menn eru sakaðir um að hafa framið morðin en þeir höfðu lýst yfir stuðningi við vígasamtökin Ríki íslams áður en þeir frömdu ódæðið. Alls eru 24 ákærðir í málinu, þar á meðal spænsk/svissneskur maður sem snerist til íslam og býr í Marokkó.
Fjölskyldur ungu kvennanna munu ekki verða viðstaddar réttarhöldin né heldur lögmenn þeirra.
Ungu konurnar voru miklir náttúruunnendur og vinkonur en þær leigðu saman og stunduðu báðar nám við Háskólann í Bø í Telemark. Þær ætluðu sér að vera á bakpokaferðalagi um Marokkó um jólin.
Konunar fundust látnar í þorpi í Atlasfjöllunum í El Haouz-héraði, skammt frá ferðamannabænum Imlil. Fljótlega eftir morðin fór myndskeið í dreifingu á samfélagsmiðlum en þar sést önnur kvennanna skorin á háls og hálshöggvin en morðið var tekið upp á farsíma eins af morðingjunum. Þar heyrist einn morðingjanna segja þær óvini Allah og morðið sé hefnd fyrir dráp á bræðrum í Sýrlandi.
Að sögn dönsku lögreglunnar hefur hún ákært 14 manns sem eru grunaðir um að hafa dreift myndskeiðinu en það var meðal annars í dreifingu á samfélagsmiðlum í Noregi og Danmörku. Lögreglustjórinn á Austur-Jótlandi, Michael Kjeldgård, segir í yfirlýsingu að fjórtán manns séu grunaðir um refsivert athæfi með því að hafa deilt myndbandinu, m.a. á Facebook og Messenger. Í hópnum eru sex unglingar á aldrinum 13 og 18 ára.
Í öðru myndskeiði sjást morðingjarnir lýsa yfir stuðningi við leiðtoga Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi.
Skömmu eftir morðin handtók lögreglan fyrsta sakborninginn í úthverfi Marrakesh en þrír aðrir voru handteknir nokkrum dögum síðar þegar þeir reyndu að forða sér frá borginni með rútu. Mennirnir eru á aldrinum 25 til 33 ára og koma allir úr fátækrahverfum Marrakesh. Enginn þeirra hefur gengið í skóla heldur reynt að framfleyta sér með íhlaupavinnu, hefur AFP-fréttastofan eftir lögreglu. Þeir höfðu skömmu áður gengið til liðs við salafista, sem eru öfgafullur hópur innan súnní.
Hryðjuverkahópurinn sem þeir tilheyrðu var undir áhrifum frá Ríki íslams en að sögn hryðjuverkalögreglunnar í Marokkó höfðu þeir engin tengsl við vígasamtökin á átakasvæðum. Ríki íslams hefur aldrei lýst yfir ábyrgð á morðunum.
Abdessamad Ejjoud, 25 ára götusali, er sagður höfuðpaur hópsins, að sögn lögreglu en auk hans eru 20 aðrir félagar í hryðjuverkahópnum ákærðir fyrir aðild að málinu. Þar á meðal Kevin Zoller Guervos, sem er með spænskan og svissneskan ríkisborgararétt en búsettur í Marokkó. Hann á að hafa kynnt sér hugmyndafræði öfgasamtaka og kennt félögum sínum hvernig ætti að beita skotvopnum og nota dulkóðuð samskiptaforrit. Hann neitar sök.
Annar Svisslendingur sem var handtekinn eftir morðin var um miðjan apríl dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir að hafa komið á laggirnar hryðjuverkahóp.